Dísilbann í Delhí

Þröng er á þingi í Nýju Delhí þegar fólk er …
Þröng er á þingi í Nýju Delhí þegar fólk er á leið úr eða í vinnu. Dísilbannið gæti létt á vandanum. mbl.is/afp

Hæstiréttur Indlands hefur sett bann við sölu stórra dísilbíla í Nýju-Delhí til að berjast gegn  vaxandi reykmengun í borginni.

Bannið, sem er þó fyrst um sinn til bráðabirgða, hefur valdið titringi meðal bílaframleiðenda sem segja að dómurinn geti átt eftir að fæla þá frá fjárfestingum í bílasmiðjum í Indlandi.

Rétturinn bannaði sölu og nýskráningu jeppa og dísilbíla með 2ja lítra og stærri vélum í Delhí og nágrenni þegar í stað og fram til 31. mars næstkomandi.

Umhverfissamtök sem fóru með mál þetta fyrir dómstóla segjast munu berjast fyrir því að bannið gildi einnig fyrir önnur svæði og annarra borga sem þjakaðar eru af reykmengun frá bílum.

Hæstiéttur segir að dómurinn muni ekki koma við kauninn á „hinum almenna borgara“. Í honum er vörubílum bannað að aka gegnum borgina á leið til annarra ríkja eða borga Indlands. Ennfremur bannaði rétturinn akstur og notkun vörubíla 10 ára og eldri með öllu í Nýju Delhí.

mbl.is