Nýtt óargadýr frá Bugatti væntanlegt

Hugmyndabíllinn Bugatti Vision var frumsýndur á Alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt …
Hugmyndabíllinn Bugatti Vision var frumsýndur á Alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt síðasta haust. Nýi ofurbíllinn Chiron ku byggja á þessu útliti að miklu leyti. mbl.is/Jón Agnar Ólafsson

Margir mótorhausarnir vötnuðu músum þegar ofurbílaframleiðandinn Bugatti tilkynnti að framleiðslu hins goðsagnakennda Veyron yrði hætt, enda hafði alltaf staðið til að framleiða hann í takmörkuðu upplagi.

Nú geta þeir hinir sömu glaðst á ný því Bugatti mun frumsýna nýtt brjálæðistæki á Alþjóðlegu bílasýningunni í Genf sem verður opnuð þann 1. mars næstkomandi. Bíllinn, sem hlotið hefur nafnið Chiron, tekur forveranum fram hvað flestar kennitölur varðar, ekki síst hestöfl og hámarkshraða. Tölurnar eru sannarlega ótrúlegar, svo ekki sé meira sagt.

Ragnarök á hjólum?

Þegar kynningarmyndbandið um Chiron, sem Bugatti sleppti lausu um áramótin, er skoðað er ljóst að hér verður engin venjuleg bifreið á ferðinni. Eiginlega lofar framleiðandinn hálfgerðum hamförum þegar bíllinn kemst á göturnar og sé orðrómurinn réttur hvað hámarkshraðann varðar þá ku hann vera 465 kílómetrar á klukustund, hvorki meira né minna. Vélin ku vera uppfærð útgáfa af vélinni úr Veyron-bílnum, sem var þó ekki dónaleg fyrir, 8.0 lítra W-16. Búist er við að Chiron verði knúinn áfram af um 1.500 hestöflum og togið verði á nágrenni við 1.490 Nm, segi og skrifa. Tölvukerfi bílsins mun svo dreifa toginu ógurlega á hjólin fjögur. Gírkassinn verður aðeins einn í boði, segir sagan; 7 gíra með tvöfaldri kúplingu. Hvað útlitið varðar þá er talið að Chiron muni að miklu leyti byggjast á hugmyndabílnum Vision sem sýndur var í Frankfurt síðasta haust.

Ósagt skal látið hvort Bugatti Chiron framkallar sjálf Ragnarök en það má reikna með því að þeir halir sem ekki aka þessu óargadýri gætilega og af virðingu muni senn troða helveginn, eins og þar stendur.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: