Ný kynslóð af Porsche 718 Boxster

Porsche 718 Boxster.
Porsche 718 Boxster.

Nú, 20 árum eftir að Boxster kom fyrst fram á sjónarsviðið, hafa Porsche verksmiðjurnar kynnt til sögunnar nýja kynslóð af 718 Boxster.

Þeim hefur, þótt ótrúlegt megi virðast, tekist að betrumbæta þessa margfrægu sportbíla sem einkennast meðal annars af miðjuliggjandi vélinni.

Í tilkynningu segir, að verkefnið hafi verið metnaðarfullt; að skapa nýja kynslóð af 718 Boxster og 718 Boxster S.  Þessi kynslóð er nú komin á göturnar og leynist engum að nýju tveggja sæta blæjubílarnir eru bæði kraftmeiri og sparneytnari.

„Með þeim er haldið í hefðir Porsche með notkun á flötum fjögurra strokka vélum, en þær sáust fyrst í annáluðum Porsche 718 keppnisbílum sem sigruðu hvert mótið á fætur öðru á árunum 1950 og 1960. Í þeim hópi voru m.a. goðsagnirnar Targa Florio og Le Mans.

Miðpunkturinn í þessum nýju 718 Boxster módelum er sem sagt glæný fjögurra strokka túrbovél þar sem, með beitingu á nýrri tækni, hefur tekist að auka eldsneytissparnaðinn um allt að 13 prósent. Togið hefur aukist verulega og spretthraðinn ekki síður; Boxster ríkur úr 0-100 km/klst. hraða á 4,7 sekúndum. Hámarkshraðinn sem gefinn hefur verið upp er 285 km/klst.“

Eins og til stóð hafa aksturseiginleikar einnig tekið breytingum; endurhannaður undirvagn eykur beygjuhæfni bílsins og elektrónískt stýriskerfið styrkir stefnufestu hans um 10%. Fyrir vikið er nýr 718 Boxster sveigjanlegri og léttari í stýri hvort sem er á keppnisbrautum eða í almennri umferð.

mbl.is