Stjarnan hjá Toyota var C-HR

Stjarnan á bás Toyota á alþjóðlegu bílasýningunni sem nú stendur yfir í Genf í Sviss er Toyota C-HR sem að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi, mun fljótlega blanda sér af krafti í sívaxandi samkeppni svonefndra C-Crossover bíla.

„Þetta er mikil sýning og flott,“ segir Páll sem fylgdist með kynningum helstu framleiðenda í fyrradag í Genf.

„Hvað þessir bílar verða kallaðir á íslensku er góð spurning. Þetta eru ekki beint jepplingar enda ekki endilega fjórhjóladrifnir. Þetta er þróun í þá átt að gera fólksbíla fjölhæfari og sportlegri. Það er löngu liðin sú tíð að fólksbíll var annað hvort sedan eða station,“ segir Páll um C-Crossover bílana.

Hönnunin á Toyota C-HR er djörf og óhætt að segja að þetta er bíll sem mun vekja eftirtekt í umferðinni enda var það eitt af markmiðunum í hönnun bílsins að láta hann líta út fyrir að vera á hreyfingu jafnvel þó hann standi kyrr.  

Páll fylgdist einnig með heimsfrumsýningu á hybridútfærslunni af Lexus LC 500 hjá lúxusbílaframleiðandanum samnefnda, sem er dótturfyrirtæki Toyota. Hefur hann fengið heitið Lexus LC 500h

Stutt myndskeið frá sýningunni fylgir þessari frétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina