Eru nýir bílatímar innan seilingar?: Sala á bílum með brunavél verði bönnuð frá 2025

Rafbíllinn Nissan Leaf á hollenskum vegi. Hópur hollenskra þingmanna hefur …
Rafbíllinn Nissan Leaf á hollenskum vegi. Hópur hollenskra þingmanna hefur horn í síðu hefðbundinna bíla.

Eru einhverjar líkur á því að fólk á miðjum aldri upplifi þá tíma, að samgöngugeirinn verði laus við brennslu lífræns eldsneytis? Gæti það gerst á Íslandi innan mannsaldurs? Tíminn einn leiðir það í ljós, en svo gæti farið að bensín- og dísilolía renni sitt skeið í Hollandi árið 2025.

Þar í landi hefur hópur þingmanna tekið höndum saman og hafið herferð gegn bílum með brunavélar. Vilja þeir að hætt verði að selja bensín- og dísilbíla í Hollandi innan áratugar, eða í síðasta lagi 2025.

Stefna hollenska verkamannaflokksins (PvdA) hefur sett það á oddinn að skipt verði um kúrs og einungis leyfðir mengunarfríir bílar á vegum landsins og í bæjum og borgum. Ályktun þess efnis hefur verið samþykkt í neðri deild þingsins í Haag.

Samkvæmt ályktuninni yrði meira að segja bannað að selja tvinnbíla og tengiltvinnbíla frá og með 2025. Einungis yrðu leyfðir hreinir rafbílar og vetnisbílar. Til viðbótar við banni við losun gróðurhúsalofts frá bílum kveður ályktunin á um að hollenska stjórnin stuðli að lausn á umferðarteppum með því að fjárfesta í mjög stórum stíl í sjálfakandi bílum.

Eins og gerist og gengur eru ekki allir á eitt sáttir um inntak ályktunarinnar. Þjóðfylkingin fyrir frelsi og lýðræði segir hana ganga of langt og vera óraunhæfa. Flokksmaðurinn og efnahagsmálaráðherrann Henk Kamp segir að samgöngukerfið þoli 15% hlutdeild rafbíla í markaðinum, hærra hlutfall gæti leitt til vandræða. Og jafnvel stöku flokksmenn PvdA gagnrýna ályktunina og segjast ekki hafa áttað sig á innihaldi hennar fyrr en þeir heyrðu um það í fréttum fjölmiðla. Litlar líkur eru taldar á að þingsályktunin eigi eftir að vera útfærð í lagafrumvarp og verða að lögum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina