Lúxusrúta fyrir 70 manns

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju, og Stefán Gunnarsson, forstjóri …
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju, og Stefán Gunnarsson, forstjóri Guðmundar Jónassonar ehf. fyrir framan Setra hópferðabílinn.

Bílaumboðið Askja afhenti á dögunum fyrirtækinu Guðmundi Jónassyni ehf. glæsilega hópferðabifreið af gerðinni Setra sem er frá dótturfyrirtæki Daimler, framleiðanda Mercedes-Benz fólks- og atvinnubíla.

Fyrirtækið Guðmundur Jónasson fagnar á þessu ári þeim áfanga að 85 ár eru síðan stofnandinn Guðmundur Jónasson fékk fyrstu rútubifreiðina.

„Afi minn, Guðmundur Jónasson bifreiðastjóri frá Múla, fékk bílpróf 1929 og sína fyrstu Ford vörubifreið árið 1930. Hann eignaðist síðan svokallað Alþingishátíðarboddý á vörubílinn árið 1931. Við rekjum því upphaf farþegaflutninga Guðmundar Jónassonar til ársins 1931, en síðan eru liðin 85 ár. Fyrirtækið er í dag í traustum rekstri, en til gamans má geta þess að kennitala fyrirtækisins er frá 1966 og er hún því 50 ára á árinu,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri  Guðmundar Jónassonar.

mbl.is