Vulcan í botni í Silverstone

Aston Martin Vuclan í Silverstone.
Aston Martin Vuclan í Silverstone.

Hvað ætli þeir séu margir sem hafa þörf fyrir 820 hestafla tveggja sæta sportbíl með sjö lítra V12-vél undir húddinu?

Því verður ekki svarað hér en til að komast yfir einn slíkan þurfa menn að reiða fram 1,5 milljónir sterlingspunda, jafnvirði um 230 milljóna íslenskra króna. Hér er um að ræða Aston Martin Vulcan, nýja afurð breska lúxus- og sportbílasmiðsins.

Bíllinn heitir eftir bresku sprengjuþotunni Vulcan og eins og á við hana stafar frá bílnum verulegur og kraftmikill hávaði á ferð. Hann er heldur ekki hugsaður til aksturs í almennri umferð, fremur til að leika sér á kappakstursbrautum.

Frá Aston Martin Vulcan stafar 118 desibela hávaði þegar hæst lætur en dempa má hann niður um 15 desibel í 103 með sérstökum hlífum sem eru meðal valbúnaðar bílsins.    

Einungis 24 eintök verða smíðuð af bílnum, en með þeirri tölu er skírskotað til árangurs Aston Martin í sólarhringskappakstrinum í Le Mans í Frakklandi. Þau hafa nú þegar öll verið seld. Bílsmiðurinn mun áfram hafa tekjur af bílunum því hann hefur tekið að sér að þjónusta þá fyrir eigendurna og undirbúa fyrir akstursdaga á kappakstursbrautum og á sérstökum akstursíþróttahátíðum.

Í mestu aflsetningu vélarinnar af þremur mögulegum skilar hún 820 hestöflum til afturhjólanna við 7.750 snúninga á mínútu. Við lægri stillingar hefur ökumaður úr að velja 550 hestöfl eða 675, sem ætti að duga flestum öðrum en reyndum kappakstursmönnum. Frá vélinni gengur aflið til hjólanna um sambyggðan sex hraða kappakstursgírkassa og drif. Gírskiptingar eru í blöðkum á stýrishjólinu.

Vulcan-bíll var á ferð í Silverstone-brautinni á Englandi um nýliðna helgi svo sem meðal annars má sjá í meðfylgjandi myndskeiðum:

mbl.is