Rafmagnsrúta frá Kína til Íslands

Rafmagnsrútan frá Yutong verður jákvætt innlegg í rafbílavæðingu landsins og …
Rafmagnsrútan frá Yutong verður jákvætt innlegg í rafbílavæðingu landsins og leggur sitt af mörkum til umhverfisvænna samgangna.

Fyrsta rafmagnsrútan sem pöntuð hefur verið til Íslands af hálfu Guðmundar Tyrfingssonar/GTS ehf. er lögð af stað til Íslands sjóleiðina frá Kína. Bifreið þessi mun verða í akstri á milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar.

Strax á næsta ári er stefnt að því að mun fleiri rafmagnsrútur komi inn á þessa leið af hálfu fyrirtækisins og að flutningsgetan verði aukin verulega.

„Verkefnið hefur verið lengi í burðarliðnum en þrátt fyrir jákvæðar viðtökur starfsmanna Isava þá hefur Isavia enn ekki veitt félaginu formlegt leyfi fyrir aðstöðu í Leifsstöð.  Forsvarsmenn félagsins eru hinsvegar sannfærðir um að það fái sambærilega aðstöðu fyrir rafmagnsvagna eins og önnur félög hafa fengið fyrir hefðbundnar dísilrútur.“ segir í tilkynningu.

Þar segir ennfremur, að verkefnið sé stórt skref í þá átt að þróa umhverfisvænar samgöngur á Íslandi og auðvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í tengslum við skuldbindingar Parísarsáttmálans um að draga úr mengun.

Rafmagnsrúturnar sem um ræðir eru framleiddar af fyrirtækinu Yutong sem er stærsti rútuframleiðandi í heiminum í dag. Framleiðir það árlega um 70.000 rútur og strætisvagna. Yutong hefur framleitt þúsundir rafmagnsvagna og hefur meðal annars sett af stað verkefni með rafmagns strætisvagna í París, höfuðborg Frakklands.

Á leið sinni til Íslands mun rafmagnsrútan fyrst fara á sýningu hjá Yutong Eurobus sem haldin er þann 18. - 20. október í Gautaborg í Svíþjóð. Strax að sýningu lokinni mun bifreið þessi koma til Íslands.

mbl.is