Ampera-e fyrst til Noregs

Ampera-e er kominn á götuna í Evrópu en fyrstu eintökin …
Ampera-e er kominn á götuna í Evrópu en fyrstu eintökin voru seld í Noregi í síðustu viku.

Rafbíllinn Opel Ampera-e er að koma á markað og hófst sala á honum í síðustu viku í Noregi fyrstu Evrópulanda. Samkvæmt upplýsingum frá Bílabúð Benna, sem er umboðsaðili Opel á Íslandi, standa vonir til að Ampera–e komi til landsins á næsta ári.

Upphaflega var gert ráð fyrir að bíllinn yrði fáanlegur í Evrópu með vorinu, en í ljósi mikillar eftirspurnar gerðu Opel verksmiðjurnar ráðstafanir til að koma bílnum fyrr á markað. Varð Noregsmarkaður fyrir valinu sem fyrsti stökkpallur Ampera-e í Evrópu og hófst formleg sala hans hjá frændum okkar þann 14. desember sl.

Val Opel á Noregi sem upphafspunkts markaðssetningarinnar hefur vakið athygli, en það er stutt þeim rökum að Norðmenn hafi verið með fyrstu þjóðum til að setja sér langtímastefnu í aukinni rafvæðingu bílaflotans og fylgt henni eftir.

Opel Ampera-e var frumsýndur á bílasýningunni í París nú í haust og vakti óskipta athygli. Um er að ræða systurbíl rafbílsins Chevrolet Bolt sem valinn var Bíll ársins í Bandaríkjunum á árinu. Í haust varð Ampera-e hlutskarpastur í flokknum Ecobest 2016 hjá Autobest-viðurkenningunum.

Í tilkynningu segir, að Opel Ampera-e sé fullvaxinn 5 manna fjölskyldubíll með 500 km drægi, samkvæmt evrópska NEDC-staðlinum. Muni það vera u.þ.b. 100 km meira en næsti keppinautur hans í sambærilegum flokki. Rafhlöðusamstæðan sem er 60 kWh, er innbyggð í gólf bílsins og tekur því ekkert pláss hvorki í fólks- né farangursrýminu.  Ampera–e togar 360 Newtonmetra og er aðeins 3,2 sekúndur í 50 km hraða.

mbl.is