Hulunni svipt af nýjum Audi Q5

Næstkomandi laugardag, 25. febrúar, frumsýnir bílaumboðið Hekla nýja kynslóð lúxusjepplingsins Audi Q5.

„Audi Q5 kom fyrst á markað árið 2008 og sló strax í gegn út um allan heim. Hann var mest seldi bíllinn í sínum flokki í sex ár og er einn farsælasti bíll Audi. 1,6 milljón eintaka fyrstu kynslóðar Q5 hafa selst og nú er komið að annarri kynslóðinni að slá í gegn,“ segir í tilkynningu frá Heklu.

Nýr Audi Q5 er stærri á flesta kanta og plássið hefur aukist en þó er hann allt að 90 kílóum léttari. Bíllinn er er stútfullur af framsæknum tækninýjungum á borð við nýja skynvædda loftfjöðrun og kraftmeiri vélar og einn af hápunktum nýju kynslóðarinnar er nýtt quattro-aldrif með forspárgetu. Drifið aðlagar togdreifinguna að aksturslaginu. Það aftengir afturdrifið þegar við á og minnkar eldsneytiseyðslu og sér fyrir þörfina á aldrifi þegar gefið er vel inn eða knappar beygjur eru framundan. Sparneytnin er í fyrirrúmi og enginn greinanlegur munur er á togkrafti og aksturseiginleikum í samanburði við sítengd kerfi.

Í boði eru þrjár vélar, 190 hestafla 2.0 TDI, 286 hestafla 3.0 TDI og 252 hestafla 2.0 TFSI. Afl þeirra hefur aukist um 10%, eða allt að 27 hestöfl, en eldsneytiseyðsla hefur minnkað. Það tekur nýjan Audi Q5 6,3 sekúndur að komast í hundraðið og hámarkshraði er 237 km á klukkustund.

 „Eftirspurnin eftir nýja bílnum hefur verið mikil enda um einn vinsælasta bíl Audi að ræða. Nýja kynslóðin er mikið uppfærð og gefið er í hvað varðar tækni, hönnun og þægindi svo spennan hjá okkur er mikil,“ segir Árni Þorsteinsson, sölustjóri Audi hjá Heklu.

mbl.is