Volvo með hreinan rafbíl 2019

Fulltrúi sænska bílsmiðsins Volvo hefur staðfest, að fyrirtækið muni senda frá sér hreinan rafbíl eftir um tvö ár, eða 2019. Staðhæfði hann þetta á ráðstefnu um tvinn- og rafbíla í San Diego í Bandaríkjunum í síðustu viku.

Volvo hefur unnið að þessu marki frá árinu 2015 að sögn Mats Anderson, yfirmanns  rafaflsdeildar Volvo.  Um verður að ræða fyrsta hreina rafbíl Volvo og þriðja tengilbíllinn þar sem fyrir er XC90 tengiltvinnbíllinn og á næsta ári bætist við ný tengiltvinnbíll.

Til að draga úr  kostnaði við rafbíla framtíðarinnar er Volvo að þróa nýjan einingaundirvagn, MEP, sem gerir kleift að smíða rafbíla með á bilinu 100 til 450 kílóvatta afl  með allt að 100 kílóvattstunda (kWh) rafgeymaorku.

Rafgeymir af stærðargráðunni 100 kWh bíður  upp á allt að 500 kílómetra drægi, allt eftir skilvirkni bílsins. Minni rafgeymar duga þó til flestra nota.

Óljóst er á þessu stigi hvaða bíll verður fyrstur smíðaður upp af MEP-undirvagninum. Volvo sýndi þó í fyrra tvo nýja hugmyndabíla sem sagðir voru báðir koma til greina. Annars vegar var um jeppann 40.1 og stallbakinn 40.2 að ræða.

Tengiltvinnbíllinn Volvo XC90 hefur almennt hlotið góðar viðtökur og staðið sig vel í samkeppni við Mitsubishi Outlander PHEV. Mikið ríður á að fyrsti rafbíllinn heppnist vel, ætli fyrirtækið að ná því setta markmiði sínu að árið 2025 verði ein milljón rafbíla frá Volvo í umferðinni víðs vegar um heim.

mbl.is