Mikill áhugi á uppsetningu hleðslustöðva

Hér má sjá hvernig stöðvarnar 105 sem Orkusjóður styrkir dreifast …
Hér má sjá hvernig stöðvarnar 105 sem Orkusjóður styrkir dreifast um landið. Kort/Orkusjóður

Mikill áhugi á uppbyggingu nets hleðslustöðva fyrir rafbíla reyndist fyrir hendi þegar Orkusjóður auglýsti styrki til að efla innviði fyrir rafbíla á landsvísu í náinni framtíð.

Alls bárust 33 umsóknir upp á 887 milljónir króna, en til ráðstöfunar var 201 milljón til útborgunar 2016 til 2018.

Sextán verkefni urðu fyrir valinu og segir Orkusjóður að hægt verði á grunni þeirra að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands.

Auk sex sveitarfélaga hlutu 10 fyrirtæki að auki styrki úr sjóðnum. Verða 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar settar upp um allt land á vegum verkefnisins, eða alls 105 stöðvar.

Stærsta styrkinn, upp á 57,1 milljón, hlaut Orka náttúrunnar, sem ætlar að setja upp 14 hraðhleðslustöðvar og fjórar hefðbundnar. Vistorka fékk 26,1 milljón, Skeljungur 20, Olíuverslun Íslands 19,6 milljónir, N1 15, Orkubú Vestfjarða 11,6 og Reykjavíkurborg 10,9 milljónir. Loks fékk HS Orka 9,1 milljón og Austurbrú 7,5 milljónir.

Vegna ársins 2016 styrkti Orkusjóður sex aðila um 66,7 milljónir króna til að setja upp 17 hraðhleðslustöðvar og þrjár minni á eftirtöldum stöðum: Skjöldólfsstöðum, Bláa lóninu, Landeyjahöfn, Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Höfn, Staðarskála, Fáskrúðsfirði, Djúpavogi, við Jökulsárlón, í Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Vík, Hellu, Flúðum, Geysi í Haukadal, Hveragerði, Blönduósi, Varmahlíð og Reykjahlíð.

Vegna ársins í ár hafa 10 aðilar verið styrktir um 66 milljónir króna til að setja upp 16 hraðhleðslustöðvar og tvær minni. Um er að ræða Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ, Isavia, N1, Olíuverslun Íslands, Orku náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Reykhólahrepp, Skeljung og Vistorku.

Loks hefur Orkusjóður ákveðið að styrkja 12 aðila til að setja upp 9 hraðhleðslutæki og 58 minni. Þar af er Reykjavíkurborg styrkt til uppsetningar á 30 minni hleðslustaurum víðs vegar um borgina. Sex hraðstöðvarnar af níu verða settar upp í Reykjavík á vegum Orku náttúrunnar, Olíuverslunar Íslands og Skeljungs. Á þessu lokaári styrktarverkefna Orkusjóðs verða auk þessa settar upp 12 hleðslustöðvar víða á Austurlandi, ein í Grindavík, þrjár í Mosfellsbæ, á Húsafelli, Reykholti, við Seljalandsfoss, í Norðurfirði á Ströndum, þrjár á Selfossi, ein á Stokkseyri, Eyrarbakka, Raufarhöfn, við Dettifoss, á Laugum, Skagaströnd og Dalvík.

Við úthlutun styrkja var sérstök áhersla lögð á að verkefnið yki aðgengi sem flestra landsmanna að innviðum fyrir hleðslu rafbíla á landsvísu. Sérstaklega var horft til aðgengis að innviðum á vinnusóknarsvæðum og að rekstur stöðvanna yrði tryggður í a.m.k. þrjú ár.

Verkefnið, rafbílar – átak í innviðum, er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum.

Sóknaráætlunin var samþykkt af ríkisstjórninni í nóvember 2015 og sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21). agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: