Fyrsta rafrútan loksins á göturnar á Íslandi

Yutong framleiðir rútur í mörgum stærðum.
Yutong framleiðir rútur í mörgum stærðum.

„Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að hefja notkun fyrstu rafrútunnar á Íslandi og við erum algjörlega sannfærð um að þetta er framtíðin í orkuskiptum á Íslandi.“ Þetta segir Benedikt Guðmundsson, en hann starfar ásamt systkinum sínum við fyrirtækið sem kennt er við föður þeirra Guðmund Tyrfingsson og gert hefur út rútur um landið allt frá árinu 1969.

„Þetta skref á sér langan aðdraganda því við höfum allt frá árinu 2008 verið í samstarfi við Yutong í gegnum fyrirtæki í okkar eigu sem nefnist Yutong Eurobus og höfum við verið að koma bílunum frá þeim á framfæri í Norður-Evrópu og Skandinavíu. Það var svo árið 2014 sem við hófum að vinna með þeim í verkefninu sem tengist rafrútunni og nú er hún komin til landsins og bíður þess að fá skráningu hjá Samgöngustofu.“

Í samstarfi við Íslendinga

Þannig hefur fyrirtækið Yutong Eurobus, sem er í eigu Guðmundar Tyrfingssonar ehf., unnið að og lagt mikla fjármuni í kynningu vagnanna í Norður-Evrópu.

„Við höfum verið með þessa vagna á sýningum í Skandinavíu og einnig í Belgíu og þeir koma vel út. Þar höfum við lagt höfuðáherslu á rafmagnsvæðinguna sem er að eiga sér stað því það liggur nú fyrir að dísilvagnar verða fljótlega bannaðir í öllum stærri borgum í Skandinavíu.“

Benedikt bendir á að þó Yutong sé ekki sá rútuframleiðandi sem Íslendingar þekkja helst þá framleiði ekkert fyrirtæki í heiminum eins marga langferðabíla og einmitt þessi gríðarstóri kínverski framleiðandi.

„Í fyrra framleiddi Yutong yfir 70 þúsund rútur og strætisvagna og af þeim voru 21.428 knúnar rafmagni. Fyrirtækið er leiðandi á þessu sviði og mér finnst það segja sína sögu að af 173 þúsund rafrútum í heiminum eru 170 þúsund þeirra í Kína. Þeir eru einfaldlega komnir miklu lengra í þessu en við höfum vitneskju um. Heimamarkaðurinn þar í landi er svo svakalega stór og því fer mest af framleiðslunni inn á hann.“

Hefur vakið mikla athygli

Úlfur Björnsson, stjórnarformaður Yutong Eurobus og annar stofnandi fyrirtækisins, segir að það hafi vakið gríðarlega athygli á Persontrafik, stærstu rútusýningu á Norðurlöndunum sem haldin var í Gautaborg í október 2016 þegar fyrirtækið kynnti nýjan rafmagnsvagn til sögunnar.

„Þessi sýning er fagsýning ætluð rútufyrirtækjum og eigendum þeirra og taka allir helstu rútuframleiðendur í heimi þátt í henni. Allir stærstu rúturekstraraðilar í Skandinavíu bókuðu fundi og komu að skoða vagninn enda mikil umskipti framundan yfir í hreina rafmagnsvagna,“ segir Úlfur.

Hann segir einnig að fyrirsjáanlegt sé að fjölmargir erlendir aðilar muni koma á næstunni til Íslands gagngert til að kynna sér þetta verkefni og að hann sé viss um að það muni styrkja ímynd lands og þjóðar sem leiðandi í umhverfisvænum samgöngum.

Langt og strangt ferli

En núna er hins vegar komið að því að fyrsta rafrútan frá Yutong komi á göturnar hér á landi og Benedikt segir að það sé langt og strangt ferli að baki þeim áfanga.

„Það er erfiðast að koma þessu af stað og ryðja brautina. Það kalla allir eftir þessu en það er töluvert átak að færa framtíðina inn í nútíðina. Þetta hafa reynst fleiri brekkur en ég bjóst við en núna sjáum við fram á að þetta sé að takast. Það hefur til dæmis tekið mjög langan tíma að koma þessum vagni í gegnum skráningu hjá Samgöngustofu. Það kom okkur dálítið á óvart, ekki síst vegna þess að það er nú þegar búið að skrá svona vagn í Bretlandi og Frakklandi.“

Aðeins eitt skref upp í vagninn

Benedikt segir að vagninn sem kominn sé til landsins sé hugsaður sem millibæjarvagn en það er í raun einföld rútuútgáfa að sænskri fyrirmynd og er svokallaður láginnstigsvagn.

„Það þarf bara eitt þrep upp í hann og það er auðvitað mjög hentugt. Svíarnir nota aðeins vagna af þessu tagi milli bæja hjá sér. Í þeim eru öryggisbelti en það er eru engar farangursgeymslur því hann er í raun hugsaður til að koma fólki eins hratt á milli staða og hægt er.“

Innan skamms má því búast við að Íslendingar muni sjá hljóðlátustu og umhverfisvænstu rútu landsins bregða fyrir á stofnbrautunum milli bæjarfélaganna á suðvesturhorni landsins.

Með fyrstu rafmagnsrútunni til landsins fylgir einnig hleðslustöð sem ætluð er fyrir stærri farartæki líkt og rútu- og almenningsvagna. Er hún 80 kW og er stærsta hleðslustöð landsins.

Rafrútan frá Yutong vakti mikla athygli á Persontrafik, stærstu Rútusýningu …
Rafrútan frá Yutong vakti mikla athygli á Persontrafik, stærstu Rútusýningu Norðurlandanna, í Gautaborg í október í fyrra.
Benedikt og Úlfur eru spenntir fyrir því að að sjá …
Benedikt og Úlfur eru spenntir fyrir því að að sjá fyrstu farþegana stíga um borð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: