Kaupir rafknúna Nissan-sendibíla

Hreinn Rafnar Magnússon hjá ITS á Keflavíkurflugvelli við einn af …
Hreinn Rafnar Magnússon hjá ITS á Keflavíkurflugvelli við einn af nýju rafknúnu Nissan ENV200 sendibílunum sem fyrirtækið hefur tekið í þjónustu sína.

Tækniþjónusta Icelandair (ITS) hefur keypt fjóra rafknúna sendibíla hjá BL af gerðinni Nissan ENV200 sem notaðir eru til margvíslegra þjónustustarfa á Keflavíkurflugvelli.

Kaupin tengjast í senn þeirri stefnu ITS í umhverfismálum að draga úr útblæstri og orkusóun vegna starfsemi fyrirtækisins og ekki síður því markmiði að lækka rekstrarkostnað vegna eldsneytiskaupa.

Að sögn Hreins Rafnars Magnússonar, yfirmanns verkfæralagers og umsjónamanns línubíla ITS, eru þrír sendibílanna komnir í fulla notkun og bætist sá fjórði við í maí. Hann segir bílana notaða allan sólarhringinn enda sé unnið á vöktum hjá ITS við þjónustu á flugflota Icelandair og annarra flugfélaga.

„Við útbjuggum sérstakt stæði fyrir hvern og einn bíl þar sem hægt er að fullhlaða þá á fjórum klukkustundum hvenær sem er þannig að þeir séu tilbúnir til notkunar hvenær sem er allan sólarhringinn,“ segir Hreinn sem kveðst ánægður með bílana enda hljóðlátir og þægilegir.
 

mbl.is