Uppseldur tveimur árum fyrir smíði

Hún segir kannski ekki mikið þessi mynd af BP23-bílnum sem …
Hún segir kannski ekki mikið þessi mynd af BP23-bílnum sem McLaren hefur sent frá sér.

Ofursportbíllinn BP23  sem McLaren kynnti nýverið er þegar uppseldur þótt fyrstu eintökin komi ekki á götuna fyrr en eftir rúm tvö ár, 2019.

Framleiðsla bílsins verður takmörkuð við 106 eintök og kostar hvert þeirra að minnsta kosti 2,5 milljónir dollara, eða vel á þriðja hundrað króna.

Hér er um að ræða þriggja sæta götubíl sem sagður verða sá öflugasti á vegunum nokkru sinni. Smíði hans er tileinkuð annáluðum sportbíl breska fyrirtækisins, McLaren F1.   

Hann verður búinn nýrri 4,0 lítra V8-vél úr sportbílasmiðju McLaren en hún er búin tvöfaldri forþjöppu. Sama vél verður í nýja McLaren 720S sportbílnum en til viðbótar verður tvinnaflrás í BP23 sem talið er að hleypa muni hestöflunum upp í á annað þúsund. Þá er hann sagður verða hraðskreiðasti götubíll frá McLarensmiðjunni nokkru sinni, þar á meðal verði hann hraðskreiðari en F1-sportbíllinn sem var með 380 km/klst. hámarkshraða.

Áætlanir gera ráð fyrir því að BP23 ofurbíllinn verði frumsýndur á bílasýningunni í Genf 2019. Um það leyti ætti hann að hafa fengið verðuga keppinauta. Mercedes-Benz áformar að hleypta Project One bílnum af stokkum síðar í ár en hann verður rúmlega 1.000 hestöfl einnig. Þá er Aston Martin að gera AM-RB 001 sportbílinn kláran fyrir frumsýningu 2018 en sá er hannaður af Adrian Newey sem hannað hefur hvern toppbílinn af fætur öðrum í formúlu-1 um dagana.

mbl.is