AMG-veisla í boði Öskju

Bílaumboðið Askja blés til sannkallaðrar stórsýningar á Mercedes-Benz bílum um nýliðna helgi í sýningarsal við Skútuvog 2.

Óhætt er að segja að þetta hafi verið ein veglegasta bílasýning sem haldin hefur verið hér á landi, en þar voru sýndir margir glæsilegir Mercedes-Benz bílar í AMG og Plug-In Hybrid útfærslum.

Ofurbíladeild Mercedes-Benz

AMG-deild Mercedes-Benz (skammstöfunin stendur fyrir Aufrecht Melcher Grossaspach) hefur það hlutverk að smíða hálfgerðar ofurútgáfur af Mercedes-Benz bílum með bestu aksturseiginleika og mesta afl sem fyrirfinnst í bílum þýska lúxusbílaframleiðandans á annað borð. Aldrei hafa fleiri slíkir bílar verið sýndir undir einu þaki hér á landi, en heildarhestöfl sýningarinnar voru að sögn 3.386. Sex Plug-in Hybrid bílar sem knúnir eru rafmagni og bensíni voru jafnframt á sýningunni ásamt B-Class rafmagnsbílnum.

Öflug aðalstjarna

Aðalstjarna sýningarinnar var hinn magnaði Mercedes-AMG GT, en bíllinn er með fjögurra lítra V8 vél sem skilar feykilegu afli, eða 476 hestöflum. Bíllinn þeytist úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4 sekúndum. Meðal annarra magnaðra bíla sem voru á sýningunni má nefna 4x42 G-Class jeppann, sem framleiddur er í takmörkuðu upplagi. Þá voru sportjepparnir stóru GLS 63 AMG og GLE 43 AMG einnig sýndir, sem og sportbílarnir C 63 AMG Coupé og C-Class Cabriolet. Þá verða einnig á staðnum S-Class AMG, V-Class AMG, og CLA 250 Sport með AMG-pakka.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: