Hlaut eldskírn sem forsetabíll

Hinn splunkunýi DS7 Crossback frá lúxusbíladeild Citroën fékk óvenjulega eldskírn á götum úti er nýkjörinn Frakklandsforseti brúkaði hann á heiðursferð sinni um miðborg Parísar eftir að hann hafði tekið við völdum 14. maí sl.

DS7 Crossback-jeppinn var frumsýndur á bílasýningunni í Genf í mars síðastliðnum en hafði ekki verið ekið áður í almennri umferð. Eintakið sem Macron hefur nú fengið til umráða sem forsetabíl er um margt sérsmíðað en það tók bílsmiði PSA sjö mánuði að fullgera það. Til að mynda er á honum þaklúga sem gerir forsetanum kleift að standa í bílnum og veifa til áhorfenda meðfram akstursleið hans.

Forsetajeppinn er blekblár að utanverðu, skjaldarmerki franska lýðveldisins er á hliðum hans og sérstök fánastöng. Undir honum eru 20 tommu sérlega gerðar og húðaðar felgur. Innanrýmið er hins vegar klætt „listasvörtu“ leðri.

Meðal staðalbúnaðar DS7 Crossback er svonefndur DS Connected Pilot sem er hálfsjálfvirkur sjálfsaksturshamur. Aukinheldur fjöðrunarbúnaðurinn DS Active Scan Suspension en hann styðst við myndavél, fjóra afstöðuskynjara og þrjá hröðunarskynjara til að skanna veginn framundan og greina með tilliti til ójafna. Á grundvelli þess laga dempararnir sig að aðstæðum og tryggja ferðalöngum mjúka yfirferð.

Macron er ekki fyrsti Frakklandsforsetinn sem brúkar DS sem forsetabíl. Það hafa forverar hans einnig gert, einna sögulegast þó Charles de Gaulle, sem slapp úr tilraun hryðjuverkamanna til að ráða hann af dögum á ferð í Citroën DS.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: