Gist á þvottastöð eða bílaverkstæði

Eitt herbergja hótelsins óvenjulega. Hér er umhorfs eins og á …
Eitt herbergja hótelsins óvenjulega. Hér er umhorfs eins og á bílaþvottastöð og rúmið hið óvenjulegasta.

Hér er venjan að fjalla um bíla en ekki hótel, eins og nú verður gert. Hótelið er þó þess eðlis að tengslin við veröld bílanna eru fyrirferðarmikil og sterk. Gisting þar mun örugglega höfða til harðasta kjarna bíladellufólks.

Hótel þetta er að finna í Böbblingen-hverfinu í Stuttgart, heimabæ bæði Porsche og Mercedes-Benz í Þýskalandi. Og það heitir því vélarlega nafni V8 Hotel. Þar í bæ smíðaði Karl Friedrich Benz allra fyrstu bensínvélina og er hótelið sagt standa bókstaflega á þeim stað þar sem bílskúrar hans voru.

Það þarf líklega ástríðumikla bíladellumenn til að ráðast í smíði þessa skemmtilega hótels sem V8 er. Í loftinu liggur áberandi keimur bensíns og olíu. Engin tvö herbergi eru eins og einstakt bílaþema í hverju þeirra.

Eitt herbergja hótelsins óvenjulega. Hér er umhorfs eins og á …
Eitt herbergja hótelsins óvenjulega. Hér er umhorfs eins og á bensínstöð og rúmið magnað.


Rúmin eru til að mynda smíðuð að hluta til úr upprunalegum bílahlutum. Sturturnar minna á bílaþvottastöðvar með burstum er snúast og þemað er keyrt út í æsar því þvottinum lýkur með heitum loftstraumi frá stórri viftu sem þurrkar líkama viðkomandi.

Úr nokkrum herbergjanna má horfa niður í hálfgerðan fjársjóð. Stóran sýningarsal þar sem er að finna tugi fágætra og einstakra bíla. Motorworld heitir safnið og njóta gestir hótelsins ókeypis aðgangs að því. Þá er bara að leggja höfuðið í bleyti og velta fyrir sér hvort heimsókn til Stuttgart sé ekki næst á dagskránni. (http://www.v8hotel.de/en/the-v8-hotel.html)

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: