Tesla model 3 á undan áætlun

Nýi Tesla Model 3 fer í raðsmíði á næstu dögum.
Nýi Tesla Model 3 fer í raðsmíði á næstu dögum.

Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla segir að ný og ódýr útgáfa af rafbílum sínum, sem nefnist Model 3, hafi staðist allar prófanir og að fyrsti bíllinn komi á götuna á föstudaginn, tveimur vikum fyrr en áætlað hafði verið.

Samdægurs og bíllinn var kynntur í mars á síðasta ári bárust 180 þúsund pantanir frá áhugasömum kaupendum og eftir fyrstu vikuna höfðu um 325 þúsund manns pantað eintak. Áætlað er að á bilinu 400-500 þúsund manns hafi pantað eintak hingað til, en greiða þurfti 1.000 dali í staðfestingargjald.

Elon Musk, forstjóri Tesla, tilkynnti um áfangann á Twitter í dag, en áður hafði verið greint frá því að framleiðendur íhluta í bílinn þyrftu að skila þeim til verksmiðju Tesla fyrir 1. júlí. Áætlað er að verksmiðjan nái að framleiða 1.000 bíla á viku fyrsta mánuðinn, en að framleiðslan aukist svo og verði 5.000 bílar á viku áður en árið er á enda.

Elon Musk, forstjóri Tesla.
Elon Musk, forstjóri Tesla. AFP
mbl.is