Banna mótorhjólin fyrir árið 2030

Yfirvöld í Hanoi, höfuðborg Víetnams heita því að mótorhjól verði bönnuð í borginni fyrir árið 2030. Þetta verður gert til þess að létta á umferðartöfum og halda aftur af mengun.

Borgaryfirvöld segja að mótorhjólum fjölgi óæskilega hratt og því muni umferð og mengun einungis versna. Áætlanirnar voru samþykktar af 95 borgarfulltrúum af 96 og verður bannið sett í framkvæmd í stærstu hverfum borgarinnar. Einnig verða almenningssamgöngur efldar til muna.

Íbúar Hanoi eru um sjö milljónir. Þar eru yfir fimm milljónir mótorhjóla en einungis hálf milljón bíla.

mbl.is