Ekki aka með hendurnar á „10 og 2“

Á stýrinu miðju leynist slysagildra og vissara að hafa hendurnar …
Á stýrinu miðju leynist slysagildra og vissara að hafa hendurnar ekki á röngum stað í árekstri. mbl.is/Lexus

Mörgum var kennt í ökunáminu að best væri að staðsetja hendurnar þannig á stýrinu að vinstri höndin væri á „10“ og hægri höndin á „2“ ef stýrið væri skífa á klukku. Á það að tryggja að ökumaður hafi góða stjórn á bílnum í beygjum og geti brugðist hratt og vel við ef skyndilega þarf að sveigja frá hættu á veginum.

Núna vara sérfræðingar hins vegar við að hafa hendurnar í 10-2 stöðu, því í árekstri getur loftpúðinn í stýrinu blásið út af svo miklum krafti að valdið getur alvarlegum beinbrotum á framhandlegg, ef hendurnar eru á röngum stað. Til að verða ekki fyrir höggi púðans á því að hafa hendurnar í 9-3 stöðu eða 8-4 stöðu og láta þumlana hvíla á stýrisbrúninni framanverðri frekar en að nota þá til að grípa utan um stýrið.

Með því að staðsetja hendurnar með þessum hætti blæs loftpúðinn út án þess að slást utan í framhandleggina. Þá er líka meiri slaki í olnbogum svo handleggirnir beygjast auðveldar í árekstri.

Setið á betri stað

Þegar hendurnar færast neðar á stýrinu breytist líka staða ökumanns þannig að hann getur haft sætið aftar, svo að líkaminn hefur meira svigrúm í árekstri til að kastast fram án þess að skella á stýrinu eða fá á sig högg af loftpúðanum.

Blaðamenn Fox-sjónvarpsstöðvarinnar sannreyndu þetta á dögunum og mældu hvernig ólík staðsetning handanna hafði áhrif á árekstrardúkkur í prófunum. Reyndist dúkkunum reiða mun betur af með hendurnar í 9-3 stöðu.

Fleira þarf að varst: Þegar árekstur er yfirvofandi hættir fólki til að ýta á flautuna, til að vara aðra vegfarendur við skellinum. Þó að lætin geti dregið úr slysum á öðrum þá er vissara að hafa höndina ekki yfir flautunni þegar bíllinn rekst á fyrirstöðu, því þegar loftpúðinn blæs út getur hann þrýst handleggnum svo fast að ökumanninum að hann rekur sjálfum sér bylmingshögg í brjóst eða andlit. ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: