Jeep Compass skoðaður í sýndarveruleika

Þannig lítur Jeep Compass út á skjánum á síma markaðsstjórans, …
Þannig lítur Jeep Compass út á skjánum á síma markaðsstjórans, en það er Lenovo Phab2 Pro-snjallsími. Sjálfur er Compass-jeppinn hvergi nærri en það kemur ekki að sök. Bílinn má skoða frá öllum hliðum og meira að segja að innan, frá framsætum og aftur í skott. Sjón er sögu ríkari, getur blaðamaður vottað. Morgunblaðið/Jón Agnar Ólason

Það getur reynst snúið að skoða bíl sem er ekki á staðnum en þetta er engu að síður mögulegt í sýningarsal Íslensk-Bandaríska að Þverholti 6, Mosfellsbæ. Þar er hægt að skoða Jeep Compass, rétt eins og bíllinn stæði á gólfinu - þó hann sé í reynd hvergi nærri. Það er sérhannað forrit fyrir kynningu á Jeep Compass, byggt á Tango-hugbúnaði sem Google hannaði fyrir snjallsíma, sem gerir skoðunina mögulega. 

Útlínur Compass eru teiknaðar á gólfi í sérstökum sýningarbás í sýningarsalnum, þar sem hægt er að skoða bílinn frá öllum sjónarhornum, hátt og lágt.  „Hægt er að skipta um felgur á bílnum, skoða mismunandi liti og síðast en ekki síst er hægt að fara inn í bíllinn, skoða stjórntæki og jafnvel er hægt að flauta með því að ýta á flautuna í stýrishjólinu,“ útskýrir Sigurður Kr. Björnsson, markaðsstjóri Íslensk-Bandaríska. „Þá má einnig opna farangursrýmið og virða það fyrir sér.  Það er engu líkara en að bíllinn sé hreinlega á staðnum þegar hann er skoðaður með þessari tækni, sem ég held að hafi ekki verið notuð hér á landi áður við kynningu á nýjum bíl.“

Fyrstu eintökin af Jeep Compass sem koma til landsins verða “Launch Edition” og eru það vel útbúnir bílar í Limited-útfærslu, með mismundandi útbúnaði þó, eins og Sigurður bendir á.  „Fyrst um sinn verður 2.0 lítra 170 hestafla dísilvél í boði, en einnig verður hægt að fá 1.4 lítra 170 hestafla bensínvél.  Þá mun Compass verða fáanlegur í Trailhawk-útfærslu, sem mun hafa meiri veghæð og betur útbúin til aksturs utanvega.“

Jeep Compass verður frumsýndur þann 26. ágúst nk. í sýningarsal Íslensk-Bandaríska að Þverholti 6 Mosfellsbæ, en þess má geta ða þann sama dag verður einnig bæjarhátíð Mosfellinga sem nefnist “Í túninu heima”.  

mbl.is