Aka meira en eru ósáttir við vegina

Umferð um Kringlumýrarbraut í skammdegi og rigningu skilur eftir sig …
Umferð um Kringlumýrarbraut í skammdegi og rigningu skilur eftir sig ljósarákir. Hari

Bílaumferðin á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu fer enn vaxandi en viðhorfskannanir benda þó ekki til þess að ökumenn sitji ánægðir undir stýri því sá hópur fer síminnkandi sem segir þjóðvegi á Íslandi almennt vera góða skv. könnunum sem Vegagerðin lætur gera.

Vegagerðin birtir reglulega greinargóðar upplýsingar um umferð skv. talningum og leiða nýjustu tölur í ljós að umferðin um 16 lykiltalningarstaði Vegagerðarinnar á hringveginum jókst um 7,2 prósent í nýliðnum nóvembermánuði þrátt fyrir talsverða ófærð.

„Mest jókst umferðin á Suðurlandi og þar mest um teljara á Mýrdalssandi. Þar jókst umferðin um 30 prósent. Útlit er fyrir að umferðin aukist um meira en 10 prósent í ár, sem yrði næstmesta aukningin a.m.k. síðan 2005,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.

Sérfræðingar Vegagerðarinnar gera ráð fyrir að umferðin muni aukast um 8% í desember miðað við sama mánuð á síðasta ári. „Gangi sú spá eftir mun umferðin aukast um 10,5% yfir mælisniðin 16, sem yrði þá næst mesta aukning, í þessum sniðum, frá því að þessi samantekt hófst.“

Svipað er upp á teningnum á höfuðborgarsvæðinu, en þar jókst umferðin um 5,5 prósent í nóvember. Útlit er fyrir að umferðin í ár á svæðinu aukist um átta prósent, sem er mikil aukning á einu ári, sú næstmesta síðan þessar mælingar hófust árið 2005, að því er fram kemur í annarri frétt á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Nú þegar hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 8,2% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári og spáð er áframhaldandi aukinni umferð út árið. Gert er ráð fyrir að umferðin milli desembermánaða aukist um sama hlutfall og milli nóvembermánaða, eða um 5,5%. „Verði niðurstaðan þannig þá eykst umferðin í heild um 8% milli áranna 2016 og 2017, sem yrði næst mesta aukning frá upphafi samantektar en aðeins milli áranna 2006 og 2007 hefur mælst hlutfallslega meiri aukning en þá jókst umferðin um rétt rúm 9% á milli ára.“

1,1% segir vegina mjög góða

Vegagerðin fær Maskínu til að vinna fyrir sig viðhorfskannanir um þjóðvegi landsins tvisvar á ári. Í síðustu könnuninni sem birt var í haust kemur m.a. fram að það fækkar enn í hópi þeirra sem eru ánægðir með ástand þjóðvega landsins og 63,7% segja þjóðvegi landsins vera fremur eða mjög slæma.

Spurt var hvort svarendum fyndist þjóðvegir á Íslandi almennt vera góðir eða slæmir og var aðeins 1,1% á því að vegirnir væru mjög góðir. 7,8% sögðu þá fremur góða en 46% sögðu þá fremur slæma og 17,7% sögðu þjóðvegina mjög slæma.

Þegar spurt var hvort menn teldu Vegagerðina almennt standa sig vel eða illa varðandi viðhald vega í þéttbýli voru 16,9% svarenda í Reykjavík á þeirri skoðun að hún stæði sig vel við viðhaldið en 45,1% sagði hana standa sig illa.

Yfir 60% svarenda í könnuninni voru svo á þeirri skoðun að Vegagerðin stæði sig illa við viðhald vega í dreifbýli og aðeins 8,8% sögðu hana standa sig mjög eða frekar vel við viðhald veganna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: