Þúsundir ferða yfir Fjallið

Þórir Jónsson hefur mörg undanfarin ár starfað hjá Kynnisferðum.
Þórir Jónsson hefur mörg undanfarin ár starfað hjá Kynnisferðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Oft hefur verið rífandi stemning í rútunni. Stundum hafa farþegar tekið lagið eða kveðist á og þegar sveitakarlar og þingmenn voru í sömu ferðinni voru oft líflegar rökræður. Margir voru líka hnípnir í bragði, þá kannski á leiðinni til lækninga eða eitthvað slíkt. Í rauninni birtist allur margbreytileiki tilverunnar í þessu starfi,“ segir Þórir Jónsson, rútubílstjóri á Selfossi.

Á ferðinni frá 1972

Bílstjórinn Þórir hefur verið á ferðinni í 45 ár, en vorið 1972 kom hann til starfa hjá Sérleyfisbílum Selfoss sem þá voru með áætlunarferðir milli Reykjavíkur og Selfoss. Þegar rútuútgerðirnar á Selfossi og Hvolsvelli sameinuðust varð nafnið Austurleið –SBS, en sá rekstur var sameinaður Kynnisferðum nokkru eftir aldamótin.

Allt er annars breytingum undirorpið. Núna er Strætó bs. með reglulegar ferðir úr Reykjavík og austur fyrir fjall svo og í aðra landshluta en Þórir er bílstjóri hjá Kynnisferðum. Flesta daga sækir hann vinnu sína frá Selfossi til Reykjavíkur þar sem hann meðal annars sér um að aka áhöfnum Icelandair til og frá Keflavíkurflugvelli.

Ófær Hellisheiði í október

Rútan X 874 er Scania-bíl, en um þann bíl hafa …
Rútan X 874 er Scania-bíl, en um þann bíl hafa nokkrir gamlir rútubílstjórar með sér félagið Selfossrútuna sem notuð er við hátíðleg tækifæri mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson


„Ég var á stórri Scania-rútu mörg fyrstu árin. Stóru bílarnir dugðu misjafnlega í snjó og fyrr á árum var oft kominn vetur með fannfergi strax snemma á haustin. Ég man eftir ófærri Hellisheiði í október, svo fara þurfti Þrengslin eða aka á eftir vegheflinum. Svona haustveður koma ekki lengur, vandamálið í dag er hins vegar hvað vegurinn úr Svínahrauni og alveg austur í Hveragerði er ólánlega hannaður, ein og tvær akreinar sitt á hvað. Ef bíll fer utan í vegrið eða eitthvað fer annað úrskeiðis þá er umferðin alveg stop – fyrir svo utan að ef eitthvað er að færð þá er fjallvegum strax lokað,“ segir Þórir sem á að baki mörg þúsund ferðir yfir Hellisheiðina, sem Sunnlendingar kalla jafnan Fjallið.

Rútubílstjórar sem áður störfuðu hjá SBS stofnuðu fyrir nokkrum árum með sér félagið Selfossrútuna, sem á Scania-bíl sem ber skráningarnúmerið X 874. Bíllinn tekur 54 farþega, er árgerð 1974 og var smíðaður hjá bifreiðasmiðju Kaupfélags Árnesinga, sem eitt sinn var. Oft hendir að bílstjórarnir, allt vel þekktir menn í sinni heimabyggð, eru kallaðir til þegar haldin eru mannamót og fólk vill upplifa gömlu stemninguna og ferðast með rútu sem það á minningar um.

500 ferðir yfir Sprengisand

„Það að fólk biðji um gömlu rútuna og bílstjórana sem það man eru góð meðmæli frá fólkinu sem við höfum þjónað,“ segir Þórir sem er 69 ára og enn á fullu í starfinu. Hann hefur síðastliðin 17 ár verið Sprengisandsbílstjóri hjá Kynnisferðum sem halda uppi reglulegum ferðum milli byggðar á Suðurlandi og Mývatns yfir sumarið. Telst Þóri nú svo til að ferðir hans yfir sandinn svarta séu orðnar um 500 og sennilega hefur enginn farið þessa leið jafn oft.

„Yfir sumarið hafa þetta verið hjá mér þrjár Sprengisandsferðir, fram og til baka, í hverri viku. Mér líkar vel í fjallaferðum, þótt vegurinn sé oft grófur og seinfær, sérstaklega að sunnanverðu. Á Sprengisandi er allra veðra von, þar hef ég lent í hríðarbyl í ágústmánuði en miklu oftar fengið frábært veður, fallega fjallasýn og hitt skemmtilegt fólk á ferðinni,“ segir Þórir Jónsson að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: