Ríkið kaupi dísilbílana til baka

Dísilbílar eiga í vök að verjast.
Dísilbílar eiga í vök að verjast. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dísilbílar losa mikið af rykögnum og nituroxíði sem hættulegt getur verið að anda að sér. Einkum geta loftgæði verið léleg í borgum og öðru þéttbýli. Sænskur baráttumaður fyrir betra umhverfi, Björn Gillberg, segir að stjórnmálamenn séu ábyrgir fyrir verðhruni á dísilbílum.

Eigi er langt um liðið frá því stjórnmálamenn bæði í Noregi og Svíþjóð hvöttu neytendur til að kaupa dísilbíla fremur en bíla með bensínvél. Nokkrum árum seinna fær dísilbíllinn á sig þann stimpil að vera skaðlegri vistkerfinu en aðrir bílar og salan þeirra hrundi.

Frá því að vera 75% af bílasölunni eru dísilbílar í dag aðeins um 20% seldra bíla á ári. Og samdrátturinn heldur áfram. Vegna skaðseminnar er spurt hvað gera skuli við þúsundir dísilbíla sem eru á götunum. Fyrrnefndur Gillberg hefur svarið á reiðum höndum. Stjórnmálamennirnir verða að sæta ábyrgð og ríkið að kaupa þessa bíla upp, segir hann.

Öll spjót standa á díselbílum

Stjórnmálamenn á níunda og tíunda áratug nýliðinnar aldar lyftu hendi til stuðnings dísilbílum þar sem koltvíildislosun þeirra var lítil. Það væri ákjósanleg leið til að stemma stigu við hlýnun lofthjúpsins að kaupa dísilbíl, sögðu þeir.

Samtímis var mönnum samt kunnugt að dísilvélar losuðu fleiri gastegundir, þar á meðal nituroxíð í miklu mæli. Nú beinast sjónir manna einkum að þeirri lofttegund því hún hefur svo mikil áhrif á loftgæði bæja og borga. Þykjast menn bókstaflega hafa komist að því að gasið sé eitrað og hugsanlega lífshættulegt.

Svíar fylgja í kjölfar Norðmanna og ræða nú um að takmarka akstur dísilbíla. Umræða um takmörkun aksturs eða akstursbann dísilbíla í Stokkhólmi stendur nú sem hæst. Spjótum hefur þar verið beint að umhverfisráðherra núverandi stjórnar og þeirra fyrri. Í brimsaltri gagnrýni hafa þeir verið skensaðir fyrir að hampa dísilbílnum sem vistvænum kosti þrátt fyrir að mönnum hafi verið kunnugt um áratuga skeið að frá þeim stafaði meira af sótögnum og svifryki.

Fyrrnefndur Gillberg segir stjórnmálamennina hafa látið stjórnast af áróðri hagsmunaaðila og gabbað sænska bílkaupendur. Hann er á því að ríkið verði að venda sínu kvæði í kross. Annaðhvort verði það að kaupa alla dísilbíla til baka og farga þeim. Verði ekki orðið við þeirri áskorun sé útilokað að leggja bann við akstri dísilbíla. Og ríkið gæti jafnvel kallað yfir sig hópmálsókn.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina