Leaf söluhæsti rafbíllinn í Evrópu

Nissan Leaf er mest seldi rafbíllinn í Evrópu á fyrra …
Nissan Leaf er mest seldi rafbíllinn í Evrópu á fyrra árshelmingi.

Nissan Leaf er mesti seldi rafbíll Evrópu það sem af er ári eftir að tölur fyrri árshelmings voru gerðar upp. Á tímabilinu voru átján þúsund bílar nýskráðir í álfunni, en alls hafa 37 þúsund bílar verið keyptir frá því að bíllinn fór í sölu í október.

„Bílkaupendur hafa tekið nýjum og breyttum Leaf sérdeilis vel síðan hann var kynntur enda er bíllinn gjörbreyttur að flestu leyti frá fyrri kynslóð sem enn stendur fyllilega fyrir sínu í umferðinni um allan heim. Fyrir utan mikla útlitsbreytingu og nýja hönnun farþegarýnis er nýr Leaf mun betur búinn tæknilega en fyrri kynslóð og er auk þess kraftmeiri og með langdrægari rafhlöðu sem skilar um 270 km á hleðslunni miðað við nýja mælistaðalinn WLTP sem byggist á venjubundinni daglegri notkun við allar mögulegar aðstæður,“ að því er segir í tilkynningu.

Nýr Leaf hefur þegar unnið til nokkurra alþjóðlegra verðlauna, m.a. fyrir framúrskarandi tækni og afkastagetu. Var hann útnefndur „Grænasti bíll veraldar 2018“ á bílasýningunni í New York síðla vetrar. Þá hefur hann þegar fengið fimm stjörnur hjá evrópsku og japönsku öryggisstofnununum og var Leaf t.d, fyrsti bíllinn sem þreytti hið nýja, strangara og erfiðara árekstrapróf Euro NCAP tók nýlega í notkun.
 
Bremsunæmur orkufetill

Meðal tækninýjunga má nefna nýjan bremsunæman orkupedala (e-Pedal) sem ekki aðeins eykur hraðann þegar stigið er á pedalann heldur hægir hann einnig með virkum hætti á bílnum þegar fætinum er lyft af gjöfinni, uns hann stöðvast alveg. Þennan búnað þarf að virkja sérstaklega og þarf þá ekki að nota bremsufótstigið á meðan, nema stöðva þurfi bílinn snögglega. 

Meðal annarra nýjunga má nefna tæknikerfið ProPILOT sem aðstoðar ökumann við aksturinn með því að halda bílnum á sinni akrein og stjórna hraðanum í samræmi við umferðarþunga hverju sinni. Stöðvast bíllinn sjálfkrafa fyrir aftan næsta bíl þegar aðstæður krefjast svo dæmi sé tekið.

„ProPILOT er til þess fallið að auka vellíðan og öryggi ökumanns og farþega hvort sem er á stuttum ferðalögum eða í langtímaakstri. Einnig getur ProPILOT lagt bílnum með öruggum hætti í stæði sem getur verið afar þægilegt fyrir ökumann þar sem aðstæður eru þröngar. Tölur sýna að í heild hafa 72% þeirra sem keypt hafa nýjan Leaf frá því að hann fór í sölu í október valið bílinn með ProPILOT,“ segir í tilkynningunni.

Sá mest seldi í heimi

Leaf er mest seldi rafbíll heims en alls hafa liðlega 340 þúsund slíkir verið ný
skráðir frá því að hann kom á götuna árið 2010, þar af rúmlega 100 þúsund á Evrópumarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina