Ástkær Pajero kvaddur - í bili að minnsta kosti

Strangari mengunarreglur þýða að Pajero mun hverfa af Evrópumarkaði.
Strangari mengunarreglur þýða að Pajero mun hverfa af Evrópumarkaði. mbl.is/Árni Sæberg

Það er tímanna tákn að á meðan Audi e-tron rýkur út er síðasti Mitsubishi Pajero-jeppinn að biða eftir kaupanda.

Björn Gunnlaugsson, vörumerkjastjóri Mitsubishi, segir að vegna strangari reglna um mengunarvarnir hafi Mitsubishi ákveðið að hætta sölu Pajero í Evrópu að svo stöddu. „Því er ekki að neita að við höfum fengið hingað til okkar fólk sem hefur haldið tryggð við Pajero í langan tíma og þykir ákveðin eftirsjá í þessum góðu jeppum sem fyrst komu á markað 1982, en það má hugga þennan hóp með því að Mitsubishi hyggst alls ekki hætta að framleiða stóra jeppa.“

Segir Björn að stefna Mitsubishi sé að leggja áherslu á þróun bíls með rafmagns- og tvinn-aflrás. „Því er spáð að eftir tvö til fjögur ár muni koma nýr og enn betri stór jeppi á markað byggður á þessari hönnunarstefnu, en tíminn á eftir að leiða í ljós hvort hann fær að bera Pajero-nafnið.“

Á sama tíma og merkilegum kafla í sögu Pajero er að ljúka er Mitsubishi Outlander með tengiltvinn-aflrás að gera mikla lukku. „Bæði á Íslandi og í Noregi selst Outlander vel enda hakar hann við mörg box. Fólk í þessum löndum vill rúmgóða bíla með fjórjóladrifi en um leið umhverfisvæna og sparneytna með skemmtilega aksturseiginleika. Outlander PHEV uppfyllir allar þessar kröfur og kostar frá tæpum 4,7 milljónum, sem er ekki hátt verð fyrir vel útbúinn jeppling.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina