Fengu slæma útkomu hjá EuroNCAP

Jeep Wrangler hlaut aðeins eina stjörnu af fimm mögulegum hjá …
Jeep Wrangler hlaut aðeins eina stjörnu af fimm mögulegum hjá EuroNCAP.

Evrópska öryggismiðstöðin EuroNCAP hefur birt niðurstöðu nýjustu prófana sinna á árekstrarvörnum níu bíla. Gamall Fiat og splunkunýtt módel af Jeep Wrangler fengu harðan skell.

Fiat Panda, sem síðast var prófuð hjá EuroNCAP árið 2011 og er enn í sölu nánast óbreytt. Lék forvitni á að vita hvernig bíllinn kæmi út miðað við nýjustu kröfur um árekstrarvarnir bíla.

Einasta öryggistækið í bílnum reyndist vera sætisólaviðvörun og dugði það bílnum ekki til að hljóta eina stjörnu af fimm hjá EuroNCAP. Einungis einum bíl hefur tekist eins illa upp, en það var Fiat Punto, sem miðstöðin prófaði í fyrra. Fiat-samsteypan getur huggað sig við það að bíllinn er á síðustu metrunum í framleiðslu. Þegar hann var prófaður nýr árið 2011 hlaut hann fjórar stjsörnur, sem sýnir hversu miklu harðari kröfurnar eru í dag en fyrir sjö árum.

Útkoma Fiat-bílanna er skiljanleg í ljósi aldurs þeirra og því vekur enn meiri athygli útkoma hins splunkunýja Jeep Wrangler. Eini öryggisbúnaðurinn sem var að finna í honum var sætisbeltaviðvörun eins og í Panda og til viðbótar hraðastillir. Dugði það til einungis einnar stjörnu og mun Wrangler að þessu leyti standa langt að baki keppinautum.

„Það er virkilegt skúffelsi að sjá glænýjan bíl sem kom á markað 2018 skuli skorta búnað eins og sjálfvirka neyðarbremsu,“ sagði Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri EuroNCAP.

Bílarnir sjö sem prófaðir voru auk Panda og Warangler fengu allir fimm stjörnur, eða fullt hús. Voru það Audi Q3, BMW X5, Hyundai Santa Fe, Jaguar I-Pace, Peugeot 508, Volvo V60 og S60.

mbl.is

Bloggað um fréttina