Fátt fékk bílinn stöðvað, ekki einu sinni mesti snjór sem mælst hefur í höfuðborginni í desember. Það var ekki fyrr en í djörfung á slóða við jaðar borgar sem náttúran sigraði.
Fátt fékk bílinn stöðvað, ekki einu sinni mesti snjór sem mælst hefur í höfuðborginni í desember. Það var ekki fyrr en í djörfung á slóða við jaðar borgar sem náttúran sigraði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vart var hægt að láta síðasta ár líða án þess að taka árgerð 2012 af Íslandsbílnum Toyota Land Cruiser til kostanna, ekki hvað síst í þeirri færð sem verið hefur í höfuðborginni.

Vart var hægt að láta síðasta ár líða án þess að taka árgerð 2012 af Íslandsbílnum Toyota Land Cruiser til kostanna, ekki hvað síst í þeirri færð sem verið hefur í höfuðborginni. Það hlýtur að vera góð og gild ástæða fyrir því að hann sé valinn af þjóðinni allra jeppa helst og að sala á honum náði á þriðja hundrað eintökum á annars dræmu bílasöluári.

Nærri lætur að 20. hver bíll sem seldist hér í fyrra hafi verið Toyota Land Cruiser og fyrir því eru margar ástæður. Hann er sérdeilis traustur bíll og vel byggður og bilar lítið. Er einn af fáum og fækkandi alvöru jeppum með lágu drifi og byggður á grind og má því breyta í enn meira torfærutæki. Hann er stór bíll og frábær til ferðalaga og afar hentugur fyrir stærri fjölskyldur.

Einhver orðaði það svo að ef sest væri niður og hannaður bíll sem hentaði íslenskum aðstæðum fullkomlega yrði niðurstaðan mjög nálægt Toyota Land Cruiser. Hann er bíll sem smókingklæddum manni hentar fullkomlega sem og ef hann bregður sér í vinnugallann og stígvélin.

Trúr upprunanum

Toyota Land Cruiser er sannarlega trúr uppruna sínum. Var fyrst hannaður sem sterkt torfærutæki til notkunar í hernaði og þeirri getu hefur hann haldið allar götur síðan. Í upphafi var hann ansi hrár bíll en tíminn hefur farið vel með hann og nú státar hann af heilmiklum lúxus í ofanálag og við hráleikanum hefur tekið nokkur íburður. Þó á hann þar talsvert í land í samanburði við t.d. Porsche Cayenne eða Land Rover Discovery. Innrétting hans er þó snotur og notadrjúg og í VX-útfærslu bílsins með leðurinnréttingu er forstjórabragur á bílnum. Það gerir bílinn jafnframt enn betri að hann er með leiðsögukerfi á íslensku.

Með rafdrifin sætin var auðvelt að finna sína bestu stöðu á vellinum og flauta leikinn á. Það var gott að hafa Land Cruiser sem ferðafélaga í ófærðinni um hátíðarnar. Fátt fékk hann stöðvað, ekki einu sinni mesti snjór sem mælst hefur í höfuðborginni í desember. Það var ekki fyrr en í of mikilli djörfung reynsluökumanns á slóða við jaðar borgarmarkanna sem náttúran fékk hann sigraðan, þó aðeins tímabundið. Þá kom sér vel að hafa lágt og læst drif og dugði það til að jafna leikinn, með örlítilli aðstoð skóflu.

Einn af almestu kostum Land Cruiser kom svo vel í ljós í ófærðinni og klakabunkunum sem hægt var að fara gegnum á hraða sem fáir bílar leika eftir. Það er alveg með ólíkindum hvað bílnum lætur vel að fara hratt yfir ójafna vegi, jafnvel hálfófæra. Fjöðrun hans á þessum leikvelli er til fyrirmyndar.

Aukið afl væri vel þegið

Að ytra útliti er alls ekki verið að hylja helsta tilgang bílsins sem harðduglegan vinnuþjark. Hann er ekki með fínlegar línur. Allt er frekar kantað og það fer honum vel. Á þetta hefur heldur aukist með síðustu útlitsbreytingunni, en línurnar voru örlítið mýkri áður.

Einn af helstu veikleikum Land Cruiser hefur að miklu leyti verið lagaður, en það snýr að of litlu vélarafli. Það er mikill munur frá 173 hestafla díselvélinni sem lengi var í boði í bílnum og til þeirrar núverandi, 190 hestafla og með mikið auknu togi. Sprengirými hennar er það sama, þrír lítrar.

Nýja vélin vinnur frísklega og leti er ekki fyrsta orðið sem ökumanni dettur í hug. Engu að síður væri enn aukið afl vel þegið. Það er enginn að fara að vinna neina spyrnu á honum en á móti kemur að þessi vél er sparneytin og til marks um það eyddi bíllinn innan við 13 lítrum í mjög slæmri færðinni innanbæjar, miklum kulda og rösklegum akstri. Mjög auðvelt væri að sjá talsvert lægri tölur þó ferðast sé með ríflega 2,2 tonn af stáli.

Í skipsförmum

Toyota Land Cruiser er einn fárra bíla sem teljast alvöru jeppar og sú staðreynd að hægt er að breyta honum í enn meira torfærutæki er ein af mörgum ástæðum þess að hann telst hinn sanni Íslandsbíll og selst í skipsförmum. Það mun hann áfram gera uns hættir að snjóa á landinu og fjöllin verða flött út.

finnur.orri@gmail.com