Óhætt er að segja að Volvo V40 Cross Country sé skemmtilegur aksturbíll og jafnvel stundum örlítið yfirstýrður.
Óhætt er að segja að Volvo V40 Cross Country sé skemmtilegur aksturbíll og jafnvel stundum örlítið yfirstýrður. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volvo V40 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2012 þegar hann tók við flagginu af S40-bílnum. Cross Country útgáfan var fyrst frumsýnd á bílasýningunni í París árið 2012 og telst V40 vera öruggasti bíll í heimi samkvæmt mælingum EuroNCAP.

Volvo V40 kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2012 þegar hann tók við flagginu af S40-bílnum. Cross Country útgáfan var fyrst frumsýnd á bílasýningunni í París árið 2012 og telst V40 vera öruggasti bíll í heimi samkvæmt mælingum EuroNCAP. Hann fékk andlistlyftingu á síðasta ári og var frumsýndur hérlendis um miðan október. Morgunblaðinu gafst þó ekki kostur á að prófa bílinn fyrr en núna og hann fékk mikla og góða prófun við ýmsar aðstæður um páskahelgina.

Hvar er bakkmyndavélin?

Það er ekki mikill munur á venjulegum V40 og Cross Country-útgáfunni. Að vísu er búið að hækka bílinn um 40 mm en útlitslega eru breytingarnar ekki miklar og þarf þjálfað auga til að sjá þær. V40 Cross Country kemur með þakbogum og svörtu plasti undir stuðurum og á hliðum og er þá nánast upptalið. Andlitslyftingin nær ekki til innréttingar sem þrátt fyrir framúrstefnulega hönnun er orðin heldur gamaldags í útliti sem búnaði. Efnisval er að vísu gott en lítill upplýsingaskjár og hefðbundnir skífumælar eru ekki lengur staðallinn í þessum flokki bíla. Annars er fátt upp á bílinn að klaga í þægindum frammí þegar búið er að koma sér fyrir. Þetta er bíll sem keppir við jepplinga eins og BMW X1 og Audi Q3 en maður sest samt niður í þennan bíl með tilheyrandi tilfæringum. Í aftursætum gera hurðir og háar gluggasyllur þeirra það að verkum að axlarrými verður minna en það þyrfti að vera. Það er líka bagalegt fyrir yngra fólkið sem sér ekki út og útsýni aftur fyrir ökumann er þannig að bakkmyndavél hefði komið sér vel. Farangursrými er heldur ekkert til að hrópa húrra fyrir. Gólfið er hátt og býður ekki upp á auka geymslurými þar undir. Plássið er aðeins 335 lítrar sem er talsvert langt frá keppinautunum. BMW X1 er með 420 lítra sem dæmi og Audi Q3 státar af 460 lítrum.

Öruggur í akstri

Dæmið snýst hins vegar Volvo V40 Cross Country í vil þegar farið er að keyra bílinn. Hann er lipur og snöggur upp á lagið í stýri og gefur góða öryggistilfinningu að stýrið þyngist við meiri hraða. Hann liggur vel á vegi enda nokkuð stífur á fjöðrun sem finnst vel á holóttum vegum höfuðborgarinnar. Bíllinn virkar einnig léttur að aftan og á það til að missa rassinn út úr beygjunum þegar reynt er vel á hann. Dísilvélin er 1,6 lítra og gefur gott afl þrátt fyrir ekki svo háa hestaflatölu. Það er kannski sjálfskiptingin sem mætti gera betur þar sem skiptingar virka seinar, jafnvel í svokallaðri sportskiptingu. Kunni undirritaður betur við að sjá sjálfur um skiptingarnar með valskiptingunni. Það væri því betri kostur að kaupa þennan bíl með beinskiptingu, ekki aðeins fyrir lægri eyðslutölur og minni útblástur koltvísýrings, heldur myndi það gera góðan akstursbíl enn skemmtilegri. Spólvörn er ansi afskiptasöm og á malarvegi með blautum snjó stoppaði hún bílinn í brekku. Þurfti þá að fara í aksturstölvuna til að slökkva á henni og komast áfram veginn.

Gott verð hvernig sem á er litið

Í samanburði á verði verður eiginlega að miða við tveggja lítra dísilvél þar sem að hvorugur þýsku bílana býður upp á minni vél. Þar byrjar Cross Country í 5.520.000 kr. en bætir hálfri milljón við með sjálfskiptingunni og fer í rétt rúmar sex milljónir. Bæði BMW X1 á 6.990.000 kr. sjálfskiptur og Audi Q3 á 7.490.000 kr. eru töluvert dýrari en það. Hjá Audi væri eiginlega réttlátara að bera hann saman við A3 Sportback sem að er boðinn með 1,6 lítra dísilvél. Sá bíll kostar 5.240.000 kr. sjálfskiptur en Volvo V40 Cross Country sjálfskiptur er á 5.030.000 kr. Þannig er verðið honum einnig í vil í þeim samanburði.

njall@mbl.is

Kostir: Öruggur í stýri, verð.

Gallar: Háar gluggasyllur, farangursrými.