Stærsta frumsýning á Norðurlöndum

Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi.
Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er sjálfur mjög ánægður með myndina,“ segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, en í kvöld verður frumsýnd bíómynd sem gerð var eftir bókinni „Gamlinginn sem skreið út um gluggann“. Sigurjón er yfirframleiðandi myndarinnar.

Bókin fjallar um hinn hundrað ára gamla Allan Karlsson. Hann kemur sér hjá því að mæta í eigin afmælisveislu á elliheimili í Svíþjóð þar sem hann hefur dvalist, skríður út um gluggann og lætur sig hverfa.

„Ég las bókina og varð mjög hrifinn af henni. Ég hafði í framhaldi samband við þá sænsku aðila sem voru búnir að kaupa kvikmyndaréttinn og við ákváðum að fara í samstarf um að gera myndina vegna þess að það þurfti alþjóðlegt fjármagn í hana. Það gekk allt mjög vel, ekki síst vegna þess að bókin hafði selst mjög vel í Evrópu,“ segir Sigurjón.

Bíómyndin er á sænsku, en Robert Gustafsson, þekktur sænskur leikari, fer með aðalhlutverkið. Búið er að selja myndina til allra stærstu landa í Evrópu og hún verður talsett bæði á þýsku, frönsku og ítölsku. „Myndin fer í 250 bíóhús í Svíþjóð og yfir 500 bíó á Norðurlöndunum 25. desember. Það er ein stærsta sýning á skandínavískri mynd frá upphafi. Menn eru því bjartsýnir á gott gengi myndarinnar,“ segir Sigurjón. Myndin verður frumsýnd á Íslandi um mánaðamótin janúar/febrúar.

Sigurjón segir að það sé ekki mikið um að norrænar myndir séu seldar fyrirfram til margra landa eins og þessi mynd. Venjan sé að bíómyndir séu ekki seldar áfram fyrr en þær hafi áður sannað sig annars staðar.

„Þetta er saga sem spannar heila öld. Þetta er því mjög dýr mynd á sænskan mælikvarða,“ segir Sigurjón.

Sigurjón segist hafa fengið mjög góð viðbrögð frá þeim sem hafa séð myndina. Aðilar í Þýskalandi og Frakklandi sem fjármögnuðu myndina séu mjög ánægðir. „Ég er sjálfur mjög ánægður með myndina. Það er töluverð áhætta að gera svona mynd. Leikstjóri myndarinnar hafði ekki leikstýrt bíómynd áður, en er þekktur í Svíþjóð fyrir að gera vinsæla sjónvarpsþætti. Útkoman er hins vegar frábær.“

„Gamlinginn sem skreið út um gluggann“ kom út í íslenskri þýðingu Páls Valssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir