Skemmtikrafturinn Cosby fellur af stalli

Gamanleikarinn og skemmtikrafturinn Bill Cosby.
Gamanleikarinn og skemmtikrafturinn Bill Cosby. AFP

Gamanleikarinn og skemmtikrafturinn Bill Cosby hefur átt farsælan feril og hefur stigið fram í sviðsljósið á ný, en nú er allt í uppnámi eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði byrlað konum ólyfjan og nauðgað þeim fyrir nokkrum áratugum. Ásakanirnar höfðu komið fram áður, en nú er eins og Cosby sé skyndilega orðinn geislavirkur.

Sjöunda konan, sem nú kemur fram með ásakanir á hendur Cosby, veitti viðtal á fimmtudag. Therese Serignese hjúkrunarfræðingur segir að Cosby hafi eitrað fyrir hana og haft samfarir við hana eftir að hann var með skemmtidagskrá á Hilton-hótelinu í Las Vegas árið 1976. Hún var þá 19 ára.

Lögmenn Cosbys hafa ítrekað lýst yfir því að ekkert sé hæft í þessu. Ásakanir af þessum toga séu nokkurra áratuga gamlar og hafi verið hraktar.

Cosby hefur lítið sem ekkert sagt um málið. Á miðvikudag birti fréttaþjónustan Associated Press viðtal, sem tekið var við Cosby 6. nóvember. Viðtalinu var ætlað að vekja athygli á Afríkulistasafni Smithsonian-stofnunarinnar þar sem er að finna verk úr safni leikarans. Cosby neitaði að svara spurningum um ásakanirnar og bað eftir viðtalið á meðan myndavélarnar voru enn í gangi um að ekki yrði sýnt þegar hann baðst undan að svara.

Byrlaði ólyfjan og beitti ofbeldi

Serignese sagði að hún hefði á sínum tíma hitt Cosby fyrir sýningu hans í Las Vegas og hann hefði boðið henni miða á fremsta bekk. Eftir sýninguna hefði hann boðið henni þrjár pillur, sem hún hefði ekki þorað annað en að taka við. Hann hefði síðan ráðist á hana og beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Hún hefði síðan dvalið í hótelþaksvítu hans í nokkrar vikur. Þegar hún hefði sagt að hún héldi að hún væri ólétt hefði hann vísað henni á dyr. Hún reyndist ekki ólétt. Hún sagði einnig að þau hefðu haldið sambandi og hann hefði sent henni peninga þegar hún lenti í fjárhagsvandræðum.

Snúa baki við Cosby

Serignese kvaðst ekki hafa komið fram á sínum tíma vegna þess að hún hefði óttast skömm og niðurlægingu. Hún kom nafnlaust fram 2005 og bar vitni í tengslum við lögsókn Andreu Constand, sem hélt því fram að Cosby hefði byrlað henni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Sátt náðist í því máli 2006 og hafa skilmálarnir ekki verið gerðir opinberir.

Ásakanirnar eru farnar að hafa sín áhrif. Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hætti á miðvikudag við nýjan skemmtiþátt með Cosby, hálfum sólarhring eftir að Netflix lýsti yfir því að ekkert yrði af sérstökum uppistandsþætti, sem bera átti nafnið „Cosby77“. Í þættinum átti að hylla skemmtikraftinn í tilefni af 77 ára afmæli hans. Á kapalstöðvum hefur verið hætt að endursýna gamla sjónvarpsþætti hans án þess að því fylgdu yfirlýsingar.

Cosby hefur verið á ferðalagi um Bandaríkin undir þeirri yfirskrift og hyggst halda áfram að koma fram.

Ásakanirnar á hendur Cosby hafa áður komið fram, en horfið jafnharðan. Umræðan um þær fór á flug eftir að skemmtikrafturinn Hannibal Buress kallaði hann nauðgara í skemmtiatriði og upptaka af því fór um allt á netinu. Upplýsingafulltrúar Cosbys reyndu að fá aðdáendur hans til að vekja jákvætt umtal á netinu, en það snerist í höndum þeirra þegar samskonar ásakanir um að hann væri nauðgari birtust. Við umræðuna hafa síðan fleiri konur stigið fram með sams konar ásakanir. Cosby hefur ávallt komið fram, en hinn aukni sýnileiki á 77 ára afmælinu virðist hafa orðið til þess að ásakanirnar á hendur honum komu fram að nýju.

Greiddi Cosby götu Obama?

Bill Cosby varð eins og heimilisvinur margra Íslendinga þegar þættir hans, The Cosby Show, um hina viðkunnanlegu Huxtable-fjölskyldu voru sýndir hér á sínum tíma.

Cosby var fyrsti svarti maðurinn til að leika aðalhlutverk í bandarískum sjónvarpsþætti. Þátturinn hét I Spy og gekk á sjöunda áratugnum. Sáu áhorfendur þar í fyrsta skipti í sjónvarpsþætti blökkumann, sem „ekki söng, dansaði eða lék aðstoðarmann“.

Cosby segir ekki brandara á sviði heldur sögur og höfðar til hins mannlega. Í nýrri ævisögu um hann lýsir höfundurinn, Mark Whitaker, honum þannig að hann hafi verið „svartur grínisti í jakka frá Brooks Brothers, sem náði árangri án þess að vísa til húðlitar síns með því að fá fólk af öllum kynþáttum til að hlæja að því sem það eigi sameiginlegt, en ekki því sem sundrar því“.

Cosby markaði sér líka sess í þáttum fyrir börn. Mestum árangri náði þó The Cosby Show sem hóf göngu sína 1984. Þar segir frá svartri millistéttarfjölskyldu og hafa margir sagt að þeir þættir hafi greitt götu Baracks Obama á forsetastól.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson