Draga sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna

Karó, sigurvegari keppninnar í fyrra.
Karó, sigurvegari keppninnar í fyrra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nemendafélög fjögurra framhaldsskóla hafa dregið sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna vegna fyrirhugaðra breytinga sem innleiddar verða í keppnina í ár. Um er að ræða nemendafélög Framhaldsskólans á Laugum, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólans á Tröllaskaga og Verkmenntaskóla Austurlands sem hafa sent fréttatilkynningu á fjölmiðla.

Helsta breytingin á fyrirkomulagi keppninnar í ár er sú að aðeins verða tólf atriði valin til að taka þátt í aðalkeppninni. Til að eiga möguleika á því að taka þátt í keppninni þarf hver skóli að senda inn upptöku af sínu atriði. Það er síðan dómnefnd sem mun fara yfir atriðin og velja 12 atriði sem munu taka þátt í aðalkeppninni.

Hver skóli borgar 40.000 krónur fyrir það að senda inn upptöku ásamt því að fá aðgang að æfingahelgi fyrir keppnina í Reykjavík. Í tilkynningunni segir að þeir skólar sem verða síðan valdir áfram í lokakeppnina þurfa að borga auka 30.000 krónur í þátttökugjald og skuldbinda sig auk þess til að selja 20 miða til nemenda sinna á aðalkeppnina.

Skólum mismunað eftir landfræðilegri staðsetningu

„Augljóst er að hið nýja fyrirkomulag kemur sér sérstaklega illa fyrir litla skóla á landsbyggðinni. Fyrir nemendafélög með takmarkaðan fjárhag þá er þátttökugjaldið alltof hátt, sérstaklega í ljósi þess að við séum einungis að greiða fyrir það að senda upptöku af atriðinu og aðgang að æfingahelginni,“ segir í fréttatilkynningunni.  Kemur þar einnig fram að félögin séu ósátt með það að ekki sé tekið tillit til þess gríðarlega mikla aukakostnaðar sem lendir á nemendafélögum  skóla af landsbyggðinni við það að senda keppendur tvisvar til Reykjavíkur bæði á æfingahelgina og aðalkeppnina og síðan áhorfendur með keppendum á aðalkeppnina sjálfa.

„Með þessu fyrirkomulagi sitja skólar af höfuðborgarsvæðinu og skólar af landsbyggðinni ekki við sama borð og skólum er mismunað eftir landfræðilegri staðsetningu.“

Þá er einnig greint frá óánægju með það að einungis tólf keppendur taki þátt í aðalkeppninni. „Einnig erum við mjög ósátt með það að einungis 12 keppendur fá tækifæri til þess að stíga á svið og koma fram í sjónvarpi. Við teljum þetta fyrirkomulag ekki stuðla að því að keppnin verði stökkpallur fyrir unga og efnilega listamenn til að koma sér á framfæri eins og markmið keppninnar ætti að vera.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að félögin muni ekki endurskoða ákvörðunina fyrr en viðeigandi breytingar verði gerðar.

Frá keppninni 2013 en þá var hún haldin á Akureyri.
Frá keppninni 2013 en þá var hún haldin á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hagur þátttakenda skiptir alltaf mestu máli

Í samtali við mbl.is segir Steinunn Ólína Hafliðadóttir, formaður Samtaka íslenskra framhaldsskólanema, að stjórn félagsins hafi reynt að sjá til þess að keppnin í ár yrði haldin á Akureyri en niðurstaðan varð sú að það væri alltof dýrt að halda keppnina þar. Hagstæðasti kosturinn er að halda keppnina í Reykjavík að sögn Steinunnar.

Leggur hún áherslu á innan SÍF sé vilji til þess að standa við bakið á skólunum á landsbyggðinni og að hagur þátttakenda skipti alltaf mestu máli.

Rekin með miklu tapi undanfarin ár

Í tilkynningu á vef SÍF kemur fram að undanfarin ár haf Söngkeppnin verið rekin með miklu tapi. „Dvínandi áhugi virðist vera fyrir keppninni og reynst hefur erfitt að fá fólk til að mæta á aðalkeppni,“ segir í tilkynningunni en keppnin hefur síðastliðin ár verið unnin í samstarfi á milli Saga Film og SÍF.

„Í upphafi á skipulagningu söngkeppninnar 2016 var framkvæmdastjórn SÍF tjáð að Saga Film gæti ekki staðið undir kostnaði keppninnar ef hún kæmi ár eftir ár í milljóna mínus. Breytt fyrirkomulag keppninnar er því vegna óskar okkar um að halda keppninni lifandi.“

Þar segir jafnframt að ekki hafi verið mögulegt að halda keppnina á Akureyri í ár vegna gífurlegs mismunar í kostnaði en þátttökugjald hefði þurft að rísa upp í allt að 150.000 kr. á hvert nemendafélag hefði ákvörðun verið tekin um að halda keppnina fyrir norðan.

Skipa fjáröflunarteymi til að koma til móts við félögin

Í tilkynningunni segir að núverandi breyting á þátttökugjaldi séu viðbrögð SÍF við því að passa að „stökkpallur fyrir unga og efnilega söngvara glatist ekki.“

Þar kemur fram að öllum þátttakendum framhaldsskólanna, sem greitt hafa 40.000 krónur þátttökugjaldið, er boðið á Æfingarhelgi Söngkeppni Framhaldsskólanna 2016. Helgin fer fram 19.–20.mars í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Á æfingarhelginni mun keppendum bjóðast æfing með hljómsveit, myndataka og vinnsla, og hár og förðun. Einnig fá keppendur framkomunámskeið undir handleiðslu Glowie, sigurvegara Söngkeppninnar 2014.

Framkvæmdarstjórn SÍF hefur nú í fyrsta sinn skipað fjáröflunarteymi til að koma til móts við kostnað nemendafélaga og er nemendafélögum sem eiga í erfiðleikum með fjármagn í þetta verkefni bent á að hafa samband við SÍF.

Glowie sigraði keppnina árið 2014. Um æfingarhelgina fá keppendur að …
Glowie sigraði keppnina árið 2014. Um æfingarhelgina fá keppendur að sitja framkomunámskeið undir hennar handleiðslu . mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson