Allt um Óskarinn 2016

Óskarsverðlaunin eru ein þau eftirsóttustu í kvikmyndaheiminum.
Óskarsverðlaunin eru ein þau eftirsóttustu í kvikmyndaheiminum. AFP

Óskarsverðlaunahátíðin er frægasta kvikmyndhátíð í heimi. Hún hefur þó mátt muna fífill sinn fegurri því síðustu ár hefur hún legið undir ámæli fyrir fábreytni og jafnvel þótt hreint út sagt leiðinlegt sjónvarpsefni. Annað árið í röð hefur myllumerkið #OscarsSoWhite verið notað til að gagnrýna bandarísku Kvikmynda Akademíuna vegna skorts af tilnefningum til fólks utan hvíta kynstofnsins og náð mun meiri athygli en áður.

Því munu augu heimsins hvíla á Óskarnum aðfararnótt mánudags og það ekki aðeins vegna spariklæddra stjarnanna eða einskærs kvikmyndaáhuga heldur vegna þess að í kvöldinu felst möguleiki á lykilaugnablikum í réttindabaráttu fólks utan rammans. Mbl.is tók saman helstu staðreyndirnar um kvöldið sem gott er að hafa á hreinu. 

Frétt mbl.is: Allt sem þú þarft að vita um Óskarinn 2015

Hvar?

Í Dolby leikhúsinu í Hollywood, Kaliforníu og í beinni á RÚV.

Hvenær?

Athöfnin hefst 20:30 að staðartíma sunnudaginn 28 febrúar. Þá er klukkan 01:20 um nótt þann 29.febrúar hér á landi en útsending RÚV frá rauða dreglinum hefst fimm mínútum eftir miðnætti á íslenskum tíma.

Hver er kynnir?

Kynnir hátíðarinnar sem er ábyrgur fyrir að halda fínpússuðu fjörinu gangandi er grínistinn Chris Rock. Hann mun fara með opnunarræðu kvöldsins eins og hefðin segir til um og þrátt fyrir að Óskarsverðlaunin hafi orð á sér fyrir að vera fremur bragðlaus er búist við nægu biti frá Rock. Nokkuð var þrýst á Rock að hætta við þátttöku í athöfninni vegna #OscarsSoWhite málsins mikla og gera má ráð fyrir að hin hvítþvegna Hollywood muni rata reglulega í brandara hans og annarra sem og í alvarlegri ræður.

Chris Rock er aðalkynnir hátíðarinnar.
Chris Rock er aðalkynnir hátíðarinnar. mbl.is/AFP

En kynnar?

Já, það eru fleiri kynnar. Rock er einskonar gestgjafi en hinir kynnarnir eru eiginlega „tilkynnar“ því þeirra hlutverk er að lesa upp nöfn hinna tilnefndu og tilkynna svo nafn sigurvegarans. Sá hópur er nokkuð fjölbreyttur samanborið við litleysi meðal mögulegra Óskarsverðlaunahafa ársins. Litadýrðin er beint svar skipuleggjenda við þeim skorti en gagnrýnendur hafa gefið í skyn að það að rækta blóm í bakgarðinum bæti ekki upp forarsvaðið framan við.

Samkvæmt Time hefur Quincy Jones tilkynnt að hann muni nota tíma sinn á sviðinu til að ræða hvítþvottinn. Meðal annarra kynna má nefna Morgan Freeman, Common og Whoopy Goldberg sem öll hafa unnið Óskarsverðlaun en eins munu Prianka Chopra, Ryan Gosling, Tina Fey og Sofia Vergara stíga á svið. Listann í heild sinni má sjá hér. 

Hverjir eru tilnefndir?

Mest megnis hvítir karlmenn. Aðeins hvítt fólk er tilnefnt í leikaraflokkunum og engin kona er tilnefnd í flokki bestu leikstjóra. Sérstaka athygli hefur vakið að þegar kom að stórmyndunum Creed og Staight Out of Compton sem snúast um „svartan“ reynsluheim tókst akademíunni samt sem áður að tilnefna aðeins hvítt fólk og leikurunum í þeirri síðarnefndu, sem allir eru svartir, er ekki einu sinni boðið til athafnarinnar.

 Árið 2016 er raunar fyrsta árið þar sem transmanneskja er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir „performans“ (lesist –leik, söng eða framkomu að öðru tagi) en transkonan Anohni tilkynnti í morgun að hún ætlar ekki að vera viðstödd Óskarsverðlaunin, meira um það síðar.

Íslendingar eiga sinn fulltrúa meðal hinna tilnefndu en það er Jóhann Jóhannsson sem er tilnefndur í annað skipti fyrir tónlist sína fyrir kvikmyndina Sicario. Þá á Sigurjón Sighvatsson óbeina tilnefningu á hátíðinni því hann er einn framleiðenda kvikmyndarinnar Gamlinginn sem skreið út um gluggan sem tilnefnd er fyrir förðun.

Hér má finna listann yfir tilnefningar til Óskarsverðlauna 2016. 

Jóhann Jóhannsson var hress þegar hann vann Golden Globe verðlaunin …
Jóhann Jóhannsson var hress þegar hann vann Golden Globe verðlaunin í fyrra. AFP

Hverjir munu vinna?

Samkvæmt Time er afar óljóst hver muni hreppa hnossið í flokki bestu kvikmyndarinnar. Upphaflega hafi allir veðjað á Spotlight, síðan hafi áherslan færst á Big Short og nýlega þyki The Revenant vænlegust til vinnings. Hvað leik í aðalhlutverki varðar hefur öll umræða snúist um Brie Larson og Leonardo DiCaprio sem tilnefnd eru fyrir leik sinn í Room og The Revenant. DiCaprio hefur fimm sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, fjórum sinnum fyrir leiksigra sína, en aldrei unnið og þykir mörgum tími til kominn.

Búist er við því að Sylvester Stallone hljóti Óskarinn fyrir besta leikara í aukahlutverki en Time segir að mörgum þyki Mark Rylance verðskulda gripinn fyrir leik sinn í Bridge of Spies. Hljóti Alejandro Iñárritu titilinn leikstjóri ársins yrði hann sá fyrsti frá árinu 1950 til að sigra í þeim flokki tvö ár í röð. Aðrir líklegir sigurvegarar sem Time tiltekur er Inside Out í flokki bestu teiknimynda og Son of Saul í flokki bestu mynda á erlendri tungu. Þá er Mad Max: Fury Road tilnefnd til tíu verðlauna og þykir líkleg til að vinna nokkur verðlaun í tækni- og brelluflokkunum ef ekki annað.

Lady Gaga mun koma fram á hátíðinni.
Lady Gaga mun koma fram á hátíðinni. AFP

Hverjir skemmta?

Þrír skemmtikraftar munu flytja lög sín sem tilnefnd eru til Óskarsins. Lady Gaga mun flytja „Til It Happens to You“ úr The Hunting Ground, Sam Smith mun flytja „Writing‘s on the Wall“ úr Spectre og The Weeknd mun flytja „Earned It“ úr Fifty Shades of Grey. Hinsvegar eru tvö önnur lög tilnefnd, úr kvikmyndunum Youth og Racing Extinction. Hin fyrrnefnda Anohni er einmitt flytjandi lagsins „Manta Ray“ úr síðastnefndu kvikmyndinni en hún birti pistil í dag þar sem hún skýrði frá þeirri ákvörðun sinni að mæta ekki á hátíðina.

Aðstandendur hátíðarinnar segja að lag hennar hafi ekki komist fyrir í dagskránni vegna sökum tímaskorts en eins og Anohni bendir á var engu að síður pláss í dagskránni fyrir „sérstakt atriði“ frá Dave Grohl en hann er ekki tilnefndur eða tengdur neinni tilnefningu. Hitt lagið sem ekki var pláss fyrir er lagið „Simple Son #3“ í flutningi suður-kóreyska sópransins Sumi Jo og segir Anohni í pistli sínum að ljóst sé að framleiðendurnir hefðu aðeins viljað þá listamenn sem væru heppilegir fyrir markaðinn. 

Það er óhætt að mæla með pistlinum sem er áhrifarík lesning. 

Anohni er ekki sú eina sem mun sniðganga hátíðina því Spike Lee, Jada Pinkett Smith og Will Smith, Ava DuVernay, leikstjóri Selma og Ryan Coogler, leikstjóri Creed munu öll halda sig fjarri til að mótmæla fábreytni Óskarsins.

Lupita Nyong'o hlaut verðlaun fyrir leik sinn í aukahlutverki í …
Lupita Nyong'o hlaut verðlaun fyrir leik sinn í aukahlutverki í myndinni 12 Years a Slave árið 2014. Síðan þá hefur enginn svartur leikari verið tilnefndur. AFP

Eitthvað að lokum?

Framleiðendurnir Reginald Hudlin og David Hill ákváðu að í ár skyldi verða skemmtilegra en áður að horfa á Óskarinn. Því er öllum þeim sem tilnefndir eru gert að gefa upp nöfn þeirra fyrir hátíðina sem þeir vilja þakka og þau nöfnin sem sigurvegararnir gefa upp munu renna yfir skjáinn á meðan á 45 sekúndna þakkarræðu þeirra stendur.

Þannig eru sigurvegararnir hvattir til að sleppa því að lesa upp langa lista og segja eitthvað sem mun hreyfa við áhorfendum. Miðað við það sem á undan er gengið ætti að verða nóg af beittum ræðum og tárum, en ef íslenskir áhorfendur nenna ekki að vaka eftir úrslitunum má að sjálfsögðu kynna sér niðurstöður kvöldsins morgunin eftir á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir