„Viljum geta gefið líka“

SOR-menn með nokkrum liðsmönnum The Southern Demon Herd. Í neðri …
SOR-menn með nokkrum liðsmönnum The Southern Demon Herd. Í neðri röð f.v. Hermann Bridde, SienceWhen og Elli Grill og í efri röð Mice, Prins Puffin, Geimgengill, Emmi Beats og Máni.

Hipphoppsveitin Shades of Reykjavík (SOR) sendi fyrir skömmu frá sér aðra plötu sína, RÓS og er hún eingöngu aðgengileg á netinu enn sem komið er, á vefnum YouTube og tónlistarveitunni Spotify. Fastir liðsmenn SOR eru þeir Elli Grill, Emmi Beats, Prins Puffin, Hermann Bridde og Geimgengill. Gestir eru nokkrir á plötunni, eins og siður er í hipphoppi en þeir eru Blaz Roca, Kristín Morthens, dadykewl, KILO og SinceWhen. Elli Grill og Hermann segja titil plötunnar einfaldlega nafn sveitarinnar, eða öllu heldur skammstöfunina, afturábak. O að vísu breytt í ó.

Býfluga sem borðar hundamat

Í tölvupósti til blaðamanns lýsti Elli Grill plötunni með þeim hætti að hún væri býfluga sem borðaði hundamat og gengi í hvítum sloppi um helgar eða ástæðunni fyrir því að menn væru hættir að senda apa út í geim. Prins Puffin mun ekki hafa skilið hvað Elli var að fara með þessu og taldi plötuna skref í rétta átt hjá mjög áttavilltum ketti.

Elli Grill og Hermann hlæja innilega að þessari lýsingu þegar blaðamaður ber hana undir þá en Hermann sá um að framleiða, hljóðblanda og mastera plötuna. „Þetta er akkúrat útskýringin á plötunni,“ segir Elli um lýsinguna.

SOR-hópurinn gefur sjálfur út plötuna og segir Hermann að á henni megi finna allar stefnur.

„Þú getur fundið old school, new school, crunk-dub ... það eru allir stílar á þessari plötu. Við höldum okkur ekki við einn stíl, erum ekki að festa okkur í einu formi því við erum listamenn og þróum okkur. Við festumst ekki í sömu formunum eins og flestar rapphljómsveitir á Íslandi,“ segir Hermann.

Tóku upp í stúdíói The Southern Demon Herd

– Er það eitthvað sem þið ákváðuð fyrirfram, að það ættu að vera svona margir stílar á plötunni?

„Nei, þetta gerðist að mestu leyti í Bandaríkjunum, í Nashville. Við vorum þar í mánuð og héldum marga tónleika þar með hópi af fólki sem heitir The Southern Demon Herd. Þeir eru útgefendur og við ferðuðumst mikið með þeim í rútum og spiluðum út um allt í Tennessee með þeim. Þeir eru með stúdíó og við tókum lögin að mestu upp í stúdíóinu þeirra í Nashville,“ segir Elli.

Hermann segir að fyrsta lagið á plötunni, „R.J.Ó.M.I.“, sé bein vísun í Wu Tang Clan-lagið „C.R.E.A.M.“. „Þetta er svona minn innblástur frá þessum 90's hipphopp-heimi og mig langaði að fara aftur í tímann því mér finnst fólk hætt að leggja metnað í tónlistina sína í dag, í hipphoppinu. Það ætti að hlusta meira á hipphopp og skilja betur um hvað það snýst,“ segir Hermann. „Við erum búnir að upplifa margt og mikið, komum beint úr kjallaranum og upp í penthouse-íbúðina og lærum þar á lífið sjálft, erum sjálfstæðir og stólum á engan annan en sjálfa okkur. Margir aðrir íslenskir hipphopp-tónlistarmenn þurfa alltaf að treysta á aðra með að búa til taktinn fyrir sig, mixa fyrir sig og svo þarf einhvern annan til að gera vídeóið.“

Óþvingað

– Þið leggið mjög mikið í vídeógerðina, gerið þið ekki vídeó við næstum öll lögin ykkar?

„Þegar við vorum að byrja með Shades of Reykjavík gerðum við vídeó við öll lög en þegar við gerðum fyrstu plötuna okkar fundum við hvað það væri gaman að gera svona heildarprójekt. Svo gefum við út RÓS og það var rosalega óþvingað allt saman, það gerðist mikið í Tennessee, í stúdíóinu þar. Þetta átti aldrei að verða plata og við vorum búnir að sitja á lögunum í gott ár áður en við gáfum þau út,“ segir Elli og Hermann bætir því við að hann hafi verið orðinn órólegur yfir því að vera með öll þessi lög í tölvunni sinni, hafi viljað gefa þau út.

Snýst ekki alltaf um peninga

– Nú eruð þið í rauninni að gefa plötuna með því að setja hana á netið þar sem allir geta hlustað á hana ókeypis. Er það ekki bara tímanna tákn, er geisladiskurinn bara dauður?

„Ég hélt það en svo er fólk alltaf að spyrja, vill eiga diska og vínyl,“ segir Elli og Hermann tekur við. „Við gerðum fyrri plötuna og settum hana í búðir til sölu. En þetta snýst ekki alltaf um peninga, fólk vill fá að hlusta á tónlist og við eigum nóg af henni og vildum bara gefa hana út. Svo kemur platan hans Ella Grill og hún fer í búðir líka. Við viljum geta gefið líka, inn á milli, viljum ekki fá peninga fyrir allt sem við gerum,“ segir Hermann. Elli bætir því við að sér hafi fundist eins og diskurinn væri dauður en fólk sé hins vegar alltaf að spyrja um hann. Og vínylhausarnir muni alltaf vilja fá sinn vínyl.

– Um hvað er verið að syngja á plötunni, partí og kynlíf?

„Ég myndi nú ekki segja það en jú, jú, partí, kynlíf, ást og kærleik og „realness“,“ segir Hermann.

Þykk fitan á leiðinni

„Hún er að fæðast, hún er tilbúin, bara verið að mastera hana. Ég býst við að hún komi út eftir tvær eða þrjár vikur,“ segir Elli Grill um væntanlega sólóplötu sína sem Alda Music, útgáfufélag Ólafs Arnalds, Sölva Blöndal o.fl., gefur út. Platan verður fyrsta sólóplata Ella og mun bera titilinn Þykk fitan.

„Það er ekkert væmið drasl á henni, ég get lofað þér því,“ segir Elli og hlær illkvittnislega. Hermann segir að á plötu Ella verði að finna alvöru hipphopp og Elli bætir því við að platan verði „mjög ævintýraleg“.

Næstu tónleikar SOR verða á Hvíta riddaranum í Mosfellsbæ 1. apríl og 5. maí verða þeir á Spot í Kópavogi.

Platan RÓS.
Platan RÓS.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson