Kannski ekki bara ólétt heldur líka trúlofuð

Kylie Jenner deilir ekki öllu með aðdáendum sínum þessa dagana.
Kylie Jenner deilir ekki öllu með aðdáendum sínum þessa dagana. mbl.is/AFP

Raunveruleikastjarnan og snyrtivöruframleiðandinn Kylie Jenner sást skarta stórum demantshring á baugfingri á leið í steypiboð systur sinnar Kim Kardashian fyrir nokkrum dögum. Hafa trúlofunarspurningar vaknað meðal aðdáenda Jenner. 

Jenner, sem er samkvæmt People sögð eiga von á stúlku í febrúar með rapparanum Travis Scott, hefur enn ekki viljað staðfesta óléttuna. Hún hefur farið sparlega með stóru orðin undanfarnar vikur og því er ekki vitað hvort hringurinn er venjulegur skartgripur eða hefur meiri þýðingu. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jenner skartar demantshringi á baugfingri en sumarið 2016 gaf Tyga, fyrrverandi kærasti Jenner, henni demantshring sem átti að gefa fyrirheit um ást þeirra. 

mbl.is