Falleg mynd af sterkri konu

La Chana í heimildarmyndinni um hana sem tilnefnd er til …
La Chana í heimildarmyndinni um hana sem tilnefnd er til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki heimildarmynda.

Sýningar á heimildarmyndinni La Chana hefjast í dag í Bíó Paradís en hún var frumsýnd hér á landi á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í byrjun október. Í myndinni er rakin saga flamenco-dansarans Antoniu Santiago Amador sem kemur fram undir nafninu La Chana. La Chana fæddist í Katalóníu á Spáni og öðlaðist heimsfrægð á sjötta áratugnum fyrir magnaða danslist sína. Hún hætti að dansa á hápunkti ferils síns og kom síðar í ljós að eiginmaður hennar var þar ábyrgur, eins og fram kemur í myndinni. Tilneydd lagði Amador dansskóna á hilluna aðeins 32 ára að aldri en sneri aftur árið 1977 í sjónvarpsþætti þar sem hún skyggði á tónlistarstjörnurnar Cliff Richard og Demi Roussos með magnaðri fótafimi sinni og innlifun.

Margverðlaunuð

Lucija Stojevic er leikstjóri heimildarmyndarinnar en hún býr, líkt og La Chana, í Barcelona. Í myndinni er fylgst með La Chana þar sem hún heldur áfram að sinna list sinni, fjallað um ástæður þess að glæsilegum ferli hennar lauk svo skyndilega og henni fylgt eftir í aðdraganda lokasýningar hennar árið 2013.

Stojevic framleiddi myndina ásamt Deirdre Towers en meðframleiðendur eru Susan Muska og Gréta Ólafsdóttir sem reka framleiðslufyrirtækið Bless Bless Productions á Íslandi og eru bæði leikstjórar og framleiðendur. Fyrsta myndin sem þær leikstýrðu og framleiddu vakti mikla athygli á sínum tíma, heimildarmyndin The Brandon Teena Story frá árinu 1998 sem sagði af morði á ungri konu sem þráði að verða karlmaður og kallaði sig Brandon Teena. Þegar upp komst að Teena væri í raun kona nauðguðu henni tveir karlmenn og myrtu, auk tveggja annarra svo engin væru vitnin. Af öðrum myndum sem þær Gréta og Muska hafa gert má nefna heimildarmyndina Edie & Thea: A Very Long Engagement sem hlaut 24 verðlaun á sínum tíma og segir af lesbíunum Edie og Theu sem höfðu verið trúlofaðar í 42 ár þegar þeim bauðst loksins að ganga að eiga hvor aðra. Í myndinni er sögð ástarsaga tveggja kvenna sem leiddi til þess að DOMA-löggjöfin, Defence of Marriage Act, var felld úr gildi þar sem hún þótti brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár landsins. 

Sögur kvenna

Heimildarmyndir Grétu og Muska eiga sameiginlegt að fjalla um mannréttindi og mannréttindabrot og segir Muska að þeim Grétu séu þau hugleikin og þá einkum réttindi stúlkna og kvenna. „Það hefur alltaf verið okkar markmið að sjá til þess að sögur kvenna séu sagðar og að raddir kvenna fái að heyrast. Við höfum mikla trú á mætti frásagnarlistarinnar og finnst sögur kvenna hafa mikið til orðið útundan, bæði í heimildarmyndum og leiknum kvikmyndum,“ segir Muska.

Og La Chana er ein þessara sagna, saga stórmerkilegrar og hæfileikaríkrar konu. Muska segir eingöngu konur koma að gerð myndarinnar en Gréta skýtur inn í að reyndar hafi hljóðmaðurinn verið karl. „En það voru eingöngu konur sem sáu til þess að þessi saga yrði sögð,“ ítrekar Muska.



Ekki dansheimildarmynd

Gréta segir myndina ekki dansheimildarmynd, hún sé mun flóknari og dýpri en svo. „Og annað sem ég tel mjög mikilvægt við myndina er að hún er valdeflandi og jákvæð og falleg saga úr sígaunasamfélaginu en slíkar sögur eiga það til að vera ansi myrkar og niðurdrepandi,“ segir Gréta og hlær.

Muska segir myndina áhrifamikla, það megi sjá á viðbrögðum áhorfenda sem bæði gráti og hlæi. „Þetta er mjög jákvæð mynd sem sýnir m.a. að þó maður sé orðinn gamall og hreyfigetan orðin takmörkuð geti maður engu að síður látið drauma sína rætast með viljastyrkinn að vopni,“ segir hún. Í myndinni dragi leikstjórinn upp jákvæða og fallega mynd af sterkri konu.

Viðtalið í heild má finna í Morgunblaðinu 22. nóvember 2017.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason