Ferningurinn fengsæll

Sænski framleiðandinn Erik Hemmendorf flutti ræðu þegar myndin Ferningurinn, „The …
Sænski framleiðandinn Erik Hemmendorf flutti ræðu þegar myndin Ferningurinn, „The Square“ hlaut verðlaun sem besta myndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í Berlin í kvöld. AFP

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru afhent í Berlín í kvöld og var mikið um dýrðir í sviðslistahúsinu Haus der Berliner Festspiele, einu af fegurri húsum borgarinnar. Umgjörð verðlaunahátíðarinnar, sem var sú þrítugasta í röðinni, minnti um margt á Óskarsverðlaunin þar sem evrópskar kvikmyndastjörnur gengu rauða dregilinn inn í húsið með fjölmiðlamenn á báðar hendur sem kepptust við að ná af þeim tali. 

Aðalkynnir kvöldsins, Thomas Hermanns, fór með gamanmál og var hinn …
Aðalkynnir kvöldsins, Thomas Hermanns, fór með gamanmál og var hinn líflegasti á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Hér sést hann í dansarafans. AFP

Skandinavísk sektarkennd

Fimm kvikmyndir voru tilnefndar til aðalverðlaunanna, sem besta evrópska kvikmyndin, og ríkti mikil spenna og eftirvænting fyrir því hver hlyti þau enda allar myndirnar margverðlaunaðar og lofsungnar af gagnrýnendum. Ein þeirra var The Square eftir sænska leikstjórann Ruben Östlund sem mætti á rauða dregilinn með aðalstjörnu myndarinnar, danska leikaranum Claes Bang. Í myndinni segir af yfirsýningastjóra í virtu samtímalistasafni í Stokkhólmi sem verður fyrir því að símanum hans er stolið og tekur hann í kjölfarið kolrangar ákvarðanir sem reynast honum dýrkeyptar. Kvikmyndin er bæði dramatísk og fyndin og var einnig tilnefnd sem besta evrópska gamanmyndin. Bang sagði í spjalli á rauða dreglinum að myndin fjallaði m.a. um hina skandinavísku sektarkennd, þ.e. þá sektarkennd sem Skandínavar finna fyrir af því þeir hafa það svo gott.

Stellan Skarsgård og Wim Wenders voru hressir á rauða dreglinum.
Stellan Skarsgård og Wim Wenders voru hressir á rauða dreglinum. AFP

Dálítið Bergman- og tannagrín

Verðlaunaafhendingin hófst með litlum brandara því útsendingin var allt í einu á hvolfi, með kynni, dönsurum og fleirum. Skýringin kom fljótlega, þegar verðlaunin voru stofnuð fyrir einum 30 árum var allt á hvolfi í Evrópu. Og grínið hélt áfram því tveir sænskir leikarar voru fengnir til að gera grín að meistara Ingmar Bergman, í svarthvítu innslagi sem minnti á Sjöunda innsiglið og kynntu svo hvaða myndir væru tilnefndar sem besta stuttmyndin. Niðurstöðuna kynnti írski leikarinn Jack Reynor, að Timecode eftir spænska leikstjórann Juanjo Giménez hefði fengið verðlaunin en í henni segir af tveimur öryggisvörðum í bílastæðahúsi.

Aðalkynnir kvöldins, Thomas Hermanns, þýskur sjónvarpsmaður og grínisti, gerði sitt besta til að fá viðstadda til að hlæja og gekk stundum ágætlega. Þakkaði til að mynda leikaranum Peter Simonischek fyrir að öðlast frægð út á það eitt að vera með stórar gervitennur uppi í sér og vísaði þar til kvikmyndarinnar Toni Erdmann sem hlaut fimm verðlaun í hátíðinni í fyrra og einnig eigin tanngarðs. 

Julie Delpy lét karlrembusvín heyra það í ræðu sinni á …
Julie Delpy lét karlrembusvín heyra það í ræðu sinni á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. AFP

Teiknimynd um van Gogh sú besta

Verðlaun fyrir bestu evrópsku teiknimynd í fullri lengd hlaut Loving Vincent, pólsk-ensk teiknimynd um Vincent van Gogh eftir leikstjórana Dorota Kobiela og Hugh Welchman. Gargaði þá hollenskur blaðamaður, tveimur sætum frá þeim íslenska, af fögnuði yfir því að teiknimynd um þennan landa hans skyldi verða hlutskörpust. Var þá komið að verðlaunum fyrir besta evrópska handritshöfund ársins 2017 og var það skemmtilega til fundið að láta lesa upp búta úr hinum tilnefndu handritum undir viðeigandi myndbútum. Verðlaunin hlaut Ruben Östlund fyrir handritið að The Square sem hann jafnframt leikstýrði. Þakkaði hann aðalleikara myndarinnar, Bang, fyrir hans hlut í handritinu sem hann sagði mikinn. Bang hefði komið með margar fallegar hugmyndir og setningar og kinkaði Bang kolli til Östlund í þakklæti, að því er virtist nokkuð voteygður.

Pólski leikstjórinn Anna Zamecka hlaut verðlaun fyrir bestu evrópsku heimildarmyndina, …
Pólski leikstjórinn Anna Zamecka hlaut verðlaun fyrir bestu evrópsku heimildarmyndina, Komunia. AFP

Elsti og versti sjúkdómur Evrópu

Næstur á svið var forseti Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, leikstjórinn Wim Wenders. Minntist hann m.a. falls Berlínarmúrsins og spurði hvort Evrópa hefði nokkurn tíma haft það eins gott og í þá tæpu þrjá áratugi sem liðnir væru frá þeim merku tímamótum. Og þó.  „Elsti og versti sjúkdómur Evrópu, hvernig gat hann snúið aftur?“ spurði Wenders og átti þar við öfgakennda þjóðernissinna og hvatti fólk til að verja Evrópu fyrir þeim illu öflum. „Ég er virkilega glaður að sjá svo marga unga kvikmyndagerðarmenn hér í salnum því þið, unga fólkið, takið við keflinu og gerið baráttu okkar að ykkar baráttu,“ sagði Wenders og að unga fólkið gæti reitt sig á stuðning þeirra eldri í faginu.

Aleksander Sokurov tók við heiðursverðlaunum úr hendi vinkonu sinnar og …
Aleksander Sokurov tók við heiðursverðlaunum úr hendi vinkonu sinnar og kollega, Agnieszku Holland. AFP

Önnur verðlaun Östlund

Verðlaunin fyrir bestu leikstjórn, þar sem ein kona var meðal fimm tilnefndra, afhenti spænski leikstjórinn Carlos Saura og hlaut þau Ruben Östlund fyrir The Square. Voru verðlaunin þar með orðin þrjú, þ.e. fyrir handrit, leikstjórn og listræna hönnun. Jókst þá spennan, ætlaði The Square að sópa að sér öllum helstu verðlaununum, líkt og Toni Erdmann gerði ári fyrr?

Ekki mátti létta á þeirri spennu alveg strax því næst á svið var franska leikkonan Julie Delpy sem tók við heiðursverðlaunum fyrir „evrópskt afrek í þágu kvikmyndalistar í heiminum“, eða European achievement in World Cinema, eins og verðlaunin heita á ensku. Að lokinni syrpu með brotum úr nokkrum af þeim kvikmyndum sem Delpy hefur leikið í var sýnt myndband þar sem bandaríski leikarinn Ethan Hawke færði henni kveðjur og mærði hæfileika hennar og gáfur. Smá Hollywood á annars evrópsku kvöldi. Delpy flaug svo næstum því á höfuðið á leið sinni upp á svið og sagði tröppurnar bæði hættulegar körlum og konum.

Danski leikarinn Claes Bang var að vonum kátur yfir því …
Danski leikarinn Claes Bang var að vonum kátur yfir því að vera valinn besti leikari Evrópu fyrir leik sinn í The Square. AFP

Tombóla í lokaveislunni

„Ég er að fá þessi verðlaun fyrir að lifa af í þessum geira í 30 ár, sem ung leikkona sem hélt ærunni,“ sagði Delpy. Hún hefði í 20 ár mátt þola að hurðum væri skellt á nefið á henni. Kvikmynd sem hún hugðist leikstýra og hefja tökur á bráðum í Berlín væri nú í uppnámi þar sem fjárfestir, og það ekki evrópskur, hefði hætt við að fjármagna hana á síðustu stundu. Skýringin sem lögmaður hans hafi veitt hafi m.a. verið sú að of mikil áhætta væri fólgin í því að kona leikstýrði myndinni og það tilfinningasöm kona.

Delpy sagðist ætla að halda happadrætti í lokaveislu verðlaunanna og að vinningurinn fælist í því að snæða með henni morgunverð. Var hlegið dátt að þessu og sagðist Delpy þurfa 600.000 evrur til að fjármagna kvikmyndina að fullu. Bætti hún enn í og sagði að ef einhver reyndist virkilega rausnarlegur myndi hann hreppa hlutverk í myndinni.

Næst var komið að verðlaunum fyrir bestu evrópsku heimildarmynd en meðal tilnefndra var  La Chana en hún er að hluta íslensk framleiðsla. Blaðamaður beið því spenntur eftir að sjá hvort hún myndi hreppa verðlaunin. Nei, svo varð ekki heldur hlaut póslka heimildarmyndin Komunia verðlaunin og tók leikstjóri hennar, Anna Zamecka, við þeim.

Ungverska leikkonan Alexandra Borbély hlaut verðlaun sem besta evrópska leikkonan …
Ungverska leikkonan Alexandra Borbély hlaut verðlaun sem besta evrópska leikkonan og felldi hún gleðitár. AFP

Sokurov heiðraður

Einn virtasti leikstjóri samtímans, Rússinn Aleksandr Sokurov, var þvínæst heiðraður fyrir ævistarf í þágu kvikmyndalistarinnar en þekktasta verk hans er án efa Rússneska örkin frá árinu 2002, 96 mínútna löng óklippt kvikmynd, þ.e. tekin í einni töku, þar sem 300 ára saga Rússlands er sviðsett inni í hinu gríðarstóra Hermitage-safni í Moskvu. Þess má geta að Sokurov hlaut sambærileg verðlaun á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrir 11 árum. Sokurov sagði í þakkarræðu að honum væri illa við margt í lífinu og nefndi m.a. stríð, fangelsun og frelsissviptingu og sagði að margir í salnum þekktu frelsissviptingu af eigin raun. Þeirra á meðal var andófsmaðurinn og listamaðurinn kínverski Ai Wei Wei. Sokurov sagðist snemma á ferli sínum hafa komist að því að kvikmyndir væru hættulegt vopn.  

Fimm leikarar voru tilnefndir sem besti evrópski leikarinn og jafnmargar leikkonur sem besta evrópska leikkonan. Kom eflaust fáum á óvart að Claes Bang skyldi hljóta þau fyrrnefndu og þar með fjórðu verðlaun kvikmyndarinnar The Square. „Guð minn góður, trúið þið þessu?“ spurði Bang og hvatti alla leikara og leikkonur til að vinna með leikstjóranum Ruben Östlund, jafnvel þótt hann hafi sjálfur verið örmagna á líkama á sál eftir þá reynslu. Í flokki leikkvenna var það Alexandra Borbély sem þótti sú besta, fyrir leik sinn í ungversku kvikmyndinni On Body and Soul og fór hún grátandi upp á svið að taka við verðlaunagripnum. „Ég get ekki talað,“ sagði Borbély grátandi og þakkaði leikstýru myndarinnar, Ildikó Enyedi, fyrir að gefa henni tækifæri.

Ekki auðvelt að vera fyndinn

„Það er ekki auðvelt að vera fyndinn,“ sagði kynnir um næstu verðlaun, þau sem veitt voru fyrir bestu evrópsku grínmyndina og það eru vissulega orð að sönnu. The Square, kvikmyndin sem hlotið hafði flest verðlaun þetta kvöld, var í hópi tilnefndra í þeim flokki og hafði þegar hlotið fern verðlaun. Fjórar kvikmyndir voru tilnefndar og hlyti sú sænska þau væri það þriðja árið í röð sem sænsk kvikmynd væri valin besta grínmyndin. Og já, The Square hreppti þau og verðlaunin þar með orðin fimm. Sænskur blaðamaður sem sat við hlið þeim íslenska (og varð sífellt kátari eftir því sem verðlaununum fjölgaði) sagðist halda að engin sænsk kvikmynd hefði hlotið svo mörg verðlaun á sömu verðlaunahátíð, þ.e. annarri en sænskri. Og enn var möguleiki á fleirum.

Verðlaunin „Val fólksins“ hlaut þýsk-austurrísk-franska kvikmyndin Stefan Zweig- Farewell to Europe og verðlaun alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnenda, FIPRESCi, sem uppgötvun ársins, hlaut enska kvikmyndin Lady Macbeth eftir leikstjórann William Oldroyd. „Ég hef ekki séð hana en hef heyrt að hún sé góð,“ sagði landi Oldroyd, Stephen Frears, sem afhenti verðlaunin og hlógu hátíðargestir innilega að þeirri athugasemd. 

Og verðlaunin hlýtur...

Var þá loksins komið að því sem allir biðu eftir, afhendingu verðlauna fyrir bestu evrópsku kvikmyndina árið 2017. Og viti menn, verðlaunin hlaut auðvitað The Square, Ferningurinn, og verðlaunin þar með orðin sex talsins. Merkilegt nokk þá var sænskur leikari, Stellan Skarsgård, fenginn til að afhenda verðlaunin og bað leikstjórinn Östlund hann um að doka við og fagna með sér sem hann og gerði. Sænskur sigur og að öllum líkindum sögulegur, ef marka má sessunaut blaðamanns. Að venju komu svo allir verðlaunahafar saman uppi á sviði og glöddust hver með öðrum.

Þeim sem vilja kynna sér verðlaunin betur er bent á vefsíðu þeirra, European Film Award.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn til þess að taka ákvarðanir varðandi íbúðakaup. Hafðu trú á getu þinni til að skapa.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson