„Njótið lífsins á meðan þið getið“

Stefanía Daney Guðmundsdóttir er ein af þeim sem stefn­ir á …
Stefanía Daney Guðmundsdóttir er ein af þeim sem stefn­ir á Ólymp­íu­leika fatlaðra í Tokýó árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Stefanía Daney Guðmundsdóttir lít­ur ekki á sig sem fatlaðan ein­stak­ling, þó hún sjái illa á öðru auga og sé með greiningu um ódæmigerða einhverfu. Hún segir besta ráðið fyrir aðila eins og hana að viðurkenna einhverfuna en síðan að finna leiðir til að njóta lífsins. Hún gerir það í gegnum m.a. íþróttir.

Hún stefnir á Ólymp­íu­mót fatlaðra í Tókýó árið 2020.  Eins og staðan er í dag þá hefur hún náð lágmarkinu til að komast inn á mótið. Hún hefur stokkið 5,07 m í langstökki, en lágmarkið inn á ólympíumótið er 5.0 m. Þessi árangur sem hún setti á Íslandsmóti ÍF nýverið gerir hana að áttunda besta langstökkvara í sínum flokki í heiminum í dag.

Íslend­ing­ar eiga mögu­lega fjóra sendi­herra á Ólymp­íu­leika fatlaðra í Tókýó árið 2020. Þess­ir sendi­herr­ar „stefna að hinu ómögu­lega“. Þau æfa nú öll að miklu kappi hver í sinni grein. Þrátt fyr­ir að vera með verk­efni sem snýr að fötl­un þeirra þá eru þau öll búin að ná tök­um á lífi sínu þannig að þau geta skilið mörg okk­ar hinna eft­ir á sund­braut­inni, á hlaupa­braut­inni, í hjól­reiðum eða lang­stökki. En að sjálf­sögðu vinna fjöl­marg­ir fleiri aðilar að því að kom­ast á ólymp­íu­leik­ana; hér á landi og víðar. 

En hvernig fara fatlaðir að því að sigr­ast á fötl­un sinni og keppa á meðal hinna bestu á sínu sviði í heim­in­um? Hvaða hug­ar­far eru þau með og hvert sækja þau lífs­gleðina? Hvað gera þau öðru­vísi? 

Fólkið á mbl.is ætl­ar að reyna að finna út úr því. Þetta er annað viðtalið af fjór­um í sum­ar. Hæfi­leika­búntið Stefanía Daney er eins og viðtalið sýnir engum öðrum lík.

Sló fjögur Íslandsmet nýverið

Hvernig ertu að æfa í sumar?

„Ég æfi klukkan sex á morgnanna í KA heimilinu, áður en ég fer í vinnu og síðan á kvöldin fer ég að æfa hlaup og lyftingar með KFA. Ég starfa á leikskóla á daginn sem mér finnst æðislegt. Ég vinn hálfan daginn og hef starfað á leikskóla frá 14 ára aldri. Ég tók smávegis hlé á því á meðan ég var í framhaldsskóla en er komin aftur í þetta starf núna.“

Á Íslandsmeistaramótinu nýverið náðir þú ótrúlegum árangri. Hverju er það að þakka?

„Ég var bara búin að hvíla vel fyrir mótið og síðan er ég komin í miklu betra form en ég var í. Ég borða mjög hollt og sef vel og æfi sterkari og erfiðari æfingar í dag. Á mótinu keppti ég í 100 m, 200 m og 400 m spretthlaupi, í langstökki og spjótkasti. 

Ég er langstökkvari og 400 m spretthlaup er aukagreinin mín. Um helgina stökk ég 5.07 m sem er Íslandsmet og gefur mér rétt að keppa á Ólympíumótinu. Ég hljóp 100 m á 13,64 sek en ég átti Íslandsmetið sem var 14,09 sekúndur. Ég hljóp 200 m á 28,32 en átti Íslandsmetið sem var 29,5 sekúndur.  Síðan var ég 1 sekúndu frá mínum besta tíma í 400 m en þá var ég orðin þreytt enda nýkomin úr langstökkinu. Þannig að ég er mjög ánægð með þessi fjögur Íslandsmet sem ég á frá mótinu.“

Getur ekki gert upp á milli

Hvort skiptir þig meira máli, barnfóstru-starfið eða að keppa í íþróttum?

„Vá hvað þetta er erfið spurning. Ég get ekki gert upp á milli. Því börnin líta svo upp til mín út af íþróttunum. Þannig er ég fyrirmynd fyrir þau að hollu og góðu lífi.“ 

Af hverju eru börn svona æðisleg?

„Þau eru skemmtileg, krúttleg og fyndin.“

Og þau segja alltaf sannleikann?

„Nei, ekki alltaf.“

Á bestu ömmuna

Hvaða máli skiptir fjölskyldan í því sem þú ert að gera?

„Þau standa með mér alla leið. Allt frá því að ég byrjaði að æfa á sínum tíma.“

Ég hef heyrt að þú eigir bestu ömmuna?

„Já, hún gerir svo mikið með mér. Keyrir mig á íþróttamót og er mikið með mér.“

Hvaða ráð áttu fyrir foreldra og ömmur og afa sem langar að vera góð fyrir börnin sín?

„Bara að elta börnin sín út um allt og sjá framtíðina með þeim. Að þau finni tíma til að fylgjast með börnunum sínum og njóti lífsins með þeim.“

Hvað með sjónina þína?

„Ég er með skerta sjón á öðru auga og var greind þannig þegar ég var níu ára. Ég hafði verið þannig frá fæðingu. Síðan er ég einnig greind með ódæmigerða einhverfu. Greindist þannig þegar ég var í 7. bekk.“

Hvernig er að vera með ódæmigerða einhverfu?

„Það er skrítið en ég hugsa yfirleitt að hún sé ekki þarna, því það tekur enginn eftir því að ég er með hana, því ég er með ódæmigerða.“

Njótið lífsins á meðan þið getið

Getur þú útskýrt hvernig það er öðruvísi eða skrítið?

„Það koma oft gullkorn upp úr manni. Einu sinni sem dæmi sagði mamma við mig að ég mætti ekki borða mikið af mandarínunum sem hún hafði keypt í kassa. Síðan nokkrum dögum eftir að þær voru keyptar varð kassinn tómur og ég sagði henni að ég hefði einungis fengið fimm klamýdíur úr kassanum. Þá fóru allir að hlægja. Ég var að reyna að nota orðið sem amma notar stundum sem eru klementínur, en það fór ekki betur en svona.“

Hvað viltu segja við þá sem eru að greinast með einhverfu þessa dagana?

„Bara að vera ekki feimin og fela hana. Heldur bara að viðurkenna að hún sé þarna og þegar það skref er stigið er svo miklu auðveldara að vinna með hlutina. Síðan ráðlegg ég öllum bara að njóta lífsins á meðan þið getið. Að finna það sem gefur ykkur kraftinn og halda áfram.“

Hvað er það besta við lífið?

„Æfingar og náttúrulega ferðalögin líka. Ég elska að ferðast.“

Hvað leiðist þér að gera?

„Mér leiðist þegar ég er veik og hef ekkert að gera. Hata það þegar ég má ekki æfa.“

Hvað gera æfingarnar fyrir þig?

„Maður verður betri af því að æfa og maður kemst í betra form. Félagsskapurinn skiptir einnig máli.“

Ef þú fengir ekki þennan stuðning heima og frá fjölskyldunni, værir þú þá ekki að æfa?

„Jú ég myndi alltaf finna leið til þess að æfa. Annars væri lífið svo tilgangslaust.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gamall vinur gefur þér góð ráð í dag. Dragðu djúpt andann og veltu því fyrir þér, hvaða breytingar þú vilt gera.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka