Í fyrsta fallhlífarstökkinu með látnum leiðsögumanni

Daniel Pharr.
Daniel Pharr. AP

Bundinn bjargarlaus við deyjandi leiðbeinanda sinn í fyrsta fallhlífarstökkinu sínu sveif Daniel Pharr í nokkur hundruð metra hæð í átt að húsi og nokkrum trjám.

Herþjónustan hafði kennt þessum 25 ára gamla hermanni að örvænta ekki. Og í sjónvarpi hafði hann séð hvernig unnt var að stýra svífandi fallhlíf með átaksbreytingum á fallhlífarstögunum.

Pharr greip því í hægra stagið og togaði til að forðast húsið, togaði aftur til að sleppa við trén og lenti heilu og höldnu á akri um hálfan kílómetra frá flugvellinum þar sem þeir höfðu átt að koma niður.

Pharr segist hafa rifið sig úr beislisólunum sem festu hann við leiðsögumanninn, Georg „Chip“ Steele og hafið á honum lífgunartilraunir. Steele var seinna úrskurðaður látinn, en enn verr hefði getað farið: Aðrir leiðbeinendur við fallhlífastökksskólann sögðu Pharr að hefði hann togað of fast í stögin hefði fallhlífin orðið stjórnlaus og hann þá heldur ekki í lifenda tölu.

„Þeir sögðu mér á eftir að það væri undravert að ég skyldi vita hvað ég átti að gera. En þetta voru bara ósjálfráð viðbrögð til að lifa af. Ég gerði bara það sem ég varð að gera,“ segir Pharr í viðtali en hann hafði tekið sér frí í gær frá herstöð sinni, Fort Gordon, nálægt Augusta í Georgíu.

Fallhlífastökkið var jólagjöf frá kærustu Pharr. Þau fóru tvö til fallhlífastökksskólans Skydive Carolina í Chester á laugardag til að stökkva úr um 4,100 metra hæð, bundin við leiðsögumann.

Steele, sem var 49 ára að aldri, gaf fyrirmæli meðan flugvélin var að hefja sig til flugs. Hann sagði Pharr að fallhlífarstökk væri hans líf og yndi enda búinn að stökkva meira en 8000 sinnum.

Þeir fóru síðastir um það bil tíu fallhlífarstökkvara út úr vélinni. Pharr naut um mínútu af frjálsu falli um leið of svalt loftið umlék þá.

„Hann opnaði hlífina,“ segir Pharr. „Allt varð ofurhljótt. Það er draugaleg þögn þarna uppi. Ég kallaði til hans. „Það er ótrúlegt hvað það er hljótt hér.“ Og hann svaraði á móti eitthvað í þessa veru: „Velkominn inn í mína veröld. “

Örfáar sekúndur liðu og Pharr spurði leiðbeinanda sinn annarrar spurningar. Í þetta sinn svaraði Steele ekki. Pharr endurtók spurninguna. Ekkert svar.

„Þá leit ég til hans og hann virtist vera með meðvitund en með því að tala við hann rann upp fyrir mér að eitthvað var að,“ segir Pharr. „Svo á því stigi gerði ég mér grein fyrir að ég yrði að gera það sem varð að gera til að komast niður og reyna að hjálpa honum.

Tvímenningarnir lentu um hálfan kílómetra frá flugvellinum þar sem þeir áttu að lenda og bak við tré sem byrgði áhorfendum á flugvellinum sýn. Lífgunartilraunir Pharr á Steele báru ekki árangur.

Þegar sjúkraliðarnir voru komnir til að taka við lífgunartilraununum bað Pharr þá um að hafa samband við kærustu sína og móður, sem höfðu fylgst með öllu frá flugvellinum.

Móðir Pharr segir að allt sem þær hafi vitað á þessu stigi hafi verið stutt boð í gengum talstöð þar sem sagði að tvímenningarnir væru komnir til jarðar „og það lítur ekki vel út.“

„Það var heil eilífð“, segir móðirin, Darlene Huggins þegar hún var spurð hversu langur tími hefði liðið þar til hún fékk skilaboðin frá syni sínum um að hann væri heill á húfi. „Nei reyndar ekki, ætli að það hafi ekki verið 10, 15 mínútur.“

Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að Steele hafi látist úr hjartaslagi en krufning átti að fara fram í gær og því hefur opinber dánarorsök ekki verið gefin upp.

Pharr vill gjarnan stökkva á nýjan leik en allt útlit er fyrir að fyrsta fallhlífarstökk hans verði hans síðasta og eina.

„Fjölskylda mín hefur skipað mér að halda mig á jörðinni hér eftir,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst kannski að einhver í vinnunni sé að segja þér ósatt og líklega er það rétt mat hjá þér. Mundu að þú ert sjálfur gæddur þeim hæfileikum sem duga þér til árangurs.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst kannski að einhver í vinnunni sé að segja þér ósatt og líklega er það rétt mat hjá þér. Mundu að þú ert sjálfur gæddur þeim hæfileikum sem duga þér til árangurs.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir