Friðarsamkomulagið virðist vera að renna út í sandinn á Fílabeinsströndinni

Margir Fílabeinsstrendingar hafa ákallað Bandaríkjamenn og beðið þá um að …
Margir Fílabeinsstrendingar hafa ákallað Bandaríkjamenn og beðið þá um að bjarga landinu frá svikráðum Frakka. AP

Friðarsamningur deiluaðila á Fílabeinsströndinni virðist við það að renna út í sandinn eftir að stjórnarher landsins hafnaði nokkrum grundvallaratriðum í samkomulagsdrögum stjórnvalda og uppreisnarmanna, sem hafa um helming landsins á valdi sínu. Frönsk yfirvöld eru nú að búa sig undir að flytja franska ríkisborgara frá landinu en mikil reiði ríkir í garð Frakka sem hafa farið fyrir samningaviðræðum deiluaðila og eru sakaðir um að hafa beitt stjórnvöld óeðlilegum þrýstingi til að fá þau til að ganga að samningnum.

Andstæðingar friðarsamningsins saka Frakka um að hafa þvingað Laurent Gbagbo, forseta landsins, til að fallast á allt of mikla eftirgjöf við uppreisnarmenn en samkvæmt samkomulaginu eiga fulltrúar þeirra að fá nokkur mikilvæg ráðuneyti þeirra á meðal varnarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt deiluaðila til að fallast á samkomulagið en stjórnarherinn segir ekki koma til greina að uppreisnarmenn fái umrædd ráðuneyti og þar með yfirstjórn heraflans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert