Ahmadinejad: Helförin uppspuni sem ætlað var að setja Þjóðverja úr jafnvægi

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti. AP

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hefur sagt við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að Helförin hafi verið uppspuni bandamanna sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann sagði að tilgangurinn með sögunni um Helförina hafi verið sú að setja Þýskaland úr jafnvægi.

Ummæli Ahmadinejads, sem hefur margoft sett spurningarmerki við áreiðanleika Helfararinnar, var að finna í bréfi sem hann sendi Merkel í júlí. Það var hinsvegar ekki fyrr en nú sem efni bréfsins var gert opinbert.

„Er ekki mögulegt að sumar þjóðanna sem unnu stríðið hafi búið til þessa afsökun svo hægt væri að setja hina sigruðu þjóð stöðugt úr jafnvægi [...] til að koma í veg fyrir að hún taki nokkrum framförum,“ sagði Ahmadinejad í bréfinu.

„Spurningin er sú að ef þessi lönd, þá sérstaklega Bretland, hafi fundið fyrir ábyrgð á eftirlifendum Helfararinnar, hvers vegna tóku þau þá ekki við þeim í sínum eigin löndum?“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ahmadinejad hefur lýst yfir efasemdum sínum vegna fjöldamorða nasista á gyðingum í Þýskalandi. Hann hefur áður látið þau orð falla að Helförin hafi verið uppspuni sem hafi verið notaður til þess að réttlæta sköpun Ísraelsríkis.

„Með því að stuðla að landnámi eftirlifenda Helfararinnar á hernumdu svæðunum í Palestínu, þá hafa þeir skapað stöðuga ógn í Miðausturlöndum,“ sagði Íransforsetinn og vísaði með orðum sínum til Ísraels.

Merkel gaf til kynna þann 21. júlí sl. að hún myndi ekki svara bréfinu með formlegum hætti. Hún segir að í því hafi verið að finna „algjörlega óásættanlega“ gagnrýni á Ísrael og þar sé „í sífellu dregið í efa“ tilveruréttur Ísraelsríkis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert