Bandaríkjamönnum hótað hefndum verði Saddam tekinn af lífi

Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, er dauðadómurinn var kveðinn upp yfir …
Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, er dauðadómurinn var kveðinn upp yfir honum þann 5. nóvember sl. AP

Íraski Baath-flokkurinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem Bandaríkjunum er hótað hefndum verði Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, tekinn af lífi. Í yfirlýsingunni, sem birt er á Netinu, hóta forsvarsmenn flokksins árásum á hagsmuni Bandaríkjanna hvar sem er í heiminum verði Saddam tekinn af lífi. Þetta kemur fram á fréttavef Yahoo.

„Baath-flokkurinn og andspyrnan eru staðráðin í að leita hefnda með öllum tiltækum ráðum og hvar sem er í heiminum gegn bandaríkjunum fremji þau þennan glæp,” segir í yfirlýsingunni. „Bandaríkjastjórn verður gerð ábyrg fyrir því komi eitthvað slæmt fyrir forsetann þar sem það eru bandaríkin sem taka allar ákvarðanir en ekki leppstjórnin í Írak.” Vefsíðan sem yfirlýsingin birtist á er þekktur vettvangur flokksmanna Baath en flokkurinn var leystur upp eftir innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak árið 2003. Talið er að áhrifamenn innan flokksins, sem nú dvelja í Jemen, reki síðuna.

Hæstiréttur Íraks hafnaði í gær áfrýjunarkröfu Saddams og úrskurðaði að aftaka hans skuli fara fram innan þrjátíu daga. Í kjölfar þess sendu verjendur hans frá sér yfirlýsingu þar sem Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðasamfélagið var hvatt til að grípa inn í og stöðva þann glæp sem aftaka hans yrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert