Ný kosningalög sett í Túrkmenistan

Stytta af Saparmurats Niyazovs
Stytta af Saparmurats Niyazovs Reuters

Stjórnvöld í Túrkmenistan kynntu í dag ný kosningalög sem fela það í sér að forsetakosningarnar sem haldnar verða í landinu í febrúar verði undir styrkri stjórn stjórnvalda. Samkvæmt þeim mega þeir sex frambjóðendur sem valdir voru fyrr í vikunni hitta kjósendur að máli og kynna stefnumál sín í fjölmiðlum. Þeir mega hins vegar ekki verja öðru fé til kosningabaráttunnar en því sem þeim verður úthlutað úr opinberum sjóðum.

Skipulagning kosningafunda verður í höndum sveitarstjórna og mega frambjóðendur ekki ræða við kjósendur á öðrum vettvangi.

Forsetakosningar eiga að fara fram í Túrkmenistan 11. febrúar og kosinn verður þá eftirmaður Saparmurats Niyazovs, sem lést nýverið og var einráður í landinu í 21 ár. Niyazov komst til valda í Túrkmenistan árið 1985 og stýrði ríkinu með harðri hendi. Túrkmenistan fékk sjálfstæði árið 1991 og árið 1999 var Niyazov skipaður forseti til lífstíðar.

Svonefnt Alþýðuráð, sem er skipað 2.500 embættismönnum, ákvað kjördaginn og valdi einnig farmbjóðendurna sex. Þeirra á meðal er Gurbanguly Berdymukhammedov, bráðabirgðaforseti landsins, þótt stjórnarskrá Túrkmenistans kveði á um að sá sem gegni forsetaembætti til bráðabirgða geti ekki boðið sig fram í forsetakosningum. Ráðið breytti stjórnarskrárákvæðinu.

Verður þetta í fyrsta skipti sem Túrkmenar fá að kjósa á milli frambjóðenda í forsetakosningum. Berdymukhammedov þykir líklegastur til að hljóta hnossið en yfirmaður kjörstjórnar, Murad Kariyev, tilkynnti fyrr í vikunni að hann myndi gera hvað sem er til þess að tryggja Berdymukhamedov sigurinn.

Samkvæmt nýju lögunum mega innlendir sem erlendir aðilar fylgjast með kosningunum sem og fjölmiðlar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert