Rýming Ungdomshuset hafin

Frá götumótmælum í desember sl. vegna lokunar hússins.
Frá götumótmælum í desember sl. vegna lokunar hússins. SCANPIX

Mikill viðbúnaður er við Ungdomshuset á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, til stendur að rýma húsið svo eigendur þess fái það í hendur. Sérsveitir lögreglunnar komu sér fyrir á þaki hússins um klukkan sjö að dönskum tíma í morgun og hefur Jagtvej, gatan sem húsið stendur við verið girt af. Um tuttugu munu hafa verið handteknir, en ekki hefur komið til alvarlegra átaka enn. Danska ríkissjónvarpið segir þó frá því að einn sé alvarlega sár eftir átök við lögreglu.

Íbúar á Norðurbrú vöknuðu í morgun við þyrlur og tók talsverður fjöldi fólks sér mótmælastöðu eftir að lögregla girti svæðið af, og hefur orðið vart nokkurs óróleika. Lögreglan hefur lýst mótmælin ólögleg eftir að mótmælendur hafa reynt að komast inn á afgirta svæðið.

Á vefsíðu ungdómshússins hefur verið birt tilkynning um að húsið hafi verið rýmt og er búist við því að ungmenni sem tengjast starfsemi hússins muni bregðast við með þvi að reyna að hindra störf lögreglu og hefja aðgerðir um alla Kaupmannahöfn.

Ekki er vitað hve víðtækar aðgerðir ungmennanna verða, en mótmæli hafa a.m.k. verið skipulögð á Blågårds torgi á Norðurbrú síðdegis í dag.

Ungdomshuset hefur um árabil verið félagsmiðstöð ungs fólks, einkum í róttækari kantinum en söfnuðurinn Faderhuset keypti húsið árið 2000 og hafa ungmennin síðan reynt að komast hjá útburði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert