Íranar segja Breta hafa beitt 15 sjóliða þrýstingi

Nokkrir úr hópi bresku sjóliðanna.
Nokkrir úr hópi bresku sjóliðanna. Reuters

Ráðgjafi Mahmouds Ahmadinejads, forseta Írans, neitaði því í dag að 15 breskir hermenn og sjóliðar, sem Íranar handttóku á Persaflóa 23. mars, hefðu sætt slæmri meðferð í varðhaldinu. Sagði hann að sjóliðarnir hefðu beittir þrýstingi til að gefa slíkar yfirlýsingar á blaðamannafundi í Lundúnum í gær.

„Það er ósatt að sjóliðarnir hafi sætt misþyrmingum," sagði Ali Akbar Javanfekr, talsmaður Íransforseta. „Bresk stjórnvöld vita, að þau geta ekki falið sannleikann fyrir bresku þjóðinni. Við gerðum okkur grein fyrir því, að sjóliðarnir 15 myndu sæta þrýstingi af hálfu bresku leyniþjónustunnar. Vegna þess bað Ahmadinejad forseti Tony Blair, forsætisráðherra, að láta sjóliðana ekki gjalda þess að þeir hefðu sagt sannleikann en hann hlustaði ekki á þessa mannúðarósk," sagði Javanfekr.

Nokkrir úr röðum bresku sjóliðanna komu í sjónvarpsviðtöl á meðan þeir voru í Íran og sögðust þá hafa verið inni í íranskri lögsögu á Persaflóa þegar þeir voru handteknir. Á blaðamannafundi í gær sögðu sjóliðarnir að blaðamannafundirnir í Íran hefðu verið sviðsettir, þeir hefðu verið beittir harðræði, m.a. verið haldið í einangrun og hefðu þurft að sæta handahófskenndum yfirheyrslum. Þá sögðust sjóliðarnir hafa óttast um líf sitt og að þeim hefði verið hótað sjö ára fangelsisvist ef þeir ekki játuðu að hafa verið á írönsku yfirráðasvæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert