Páfi segir ekkert jákvætt gerast í Írak

Páfi flytur boðskap sinn í dag.
Páfi flytur boðskap sinn í dag. Reuters

Benedikt XVI páfi sagði í páskaávarpi sínu í dag, svonefndu Urbi et Orbi ávarpi, að ekkert jákvætt gerðist í Írak, þar héldi blóðbaðið áfram og almenningur legði á flótta. Einnig væri áhyggjuefni hve ástandið í Afganistan væri ótryggt og blóði væri úthellt í hlutum Afríku og Asíu. „Hve mörg sár, hve mikil þjáning er í heiminum," sagði páfi sem flutti ávarp sitt af svölum Péturskirkjunnar. Tugir þúsunda manna fylgdust með á Péturstorgi.

Benedikt sagðist hugleiða hryðjuverk og mannrán, hin þúsund andlit ofbeldisins sem sumir reyndu að réttlæta í nafni trúarbragða, um mannréttindabrot og misnotkun á fólki.

Páfi nefndi sérstaklega hörmungarnar í Darfurhéraði í Súdan, ofbeldisverk í Kongó, stríðsátök í Sómalíu og hörmulegt ástand í Simbabve. Þá sagði hann, að aðeins væri hægt að binda enda á blóðug átök í Sri Lanka með samningaviðræðum.

Benedikt flutti páskakveðjur á tugum tungumála, þar á meðal arabísku og hebresku. Ávarpið var sýnt beint í sjónvarpi í 67 löndum.

Benedikt verður áttræður 16. apríl en þremur dögum síðar verða tvö ár liðin frá því hann tók við embættinu.

Benedikt páfi gengur fram hjá mynd af fyrirrennara sínum, Jóhannesi …
Benedikt páfi gengur fram hjá mynd af fyrirrennara sínum, Jóhannesi Páli, á Péturstorginu í dag. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert