Bush harmi sleginn vegna fjöldamorðanna í tækniskólanum í Virginíu

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að hann væri harmi sleginn vegna skotárásarinnar í tækniskólanum í Virginíu sem varð þess valdandi að 33 létu lífið, með árásarmanninum meðtöldum, og fjölmargir særðust.

„Skólar ættu að vera griðastaðir. Þegar þessi griðastaður er fótum troðinn, þá finna menn fyrir áhrifum þess í sérhverri skólastofu í Bandaríkjunum og í sérhverju bandarísku samfélagi,“ sagði hann í stuttu ávarpi sem hann flutti í Hvíta húsinu.

„Þjóð okkar er harmi sleginn vegna frétta af skotárásunum í Virgina Tech í dag. Það er ekki búið að staðfesta nákvæmlega hversu margir létust, en svo virðist sem að yfir 30 manns hafi verið myrtir og margir til viðbótar hafi særst,“ sagði Bush.

Bandaríkjaforsetinn sagðist hafa sagt við ríkisstjóra Virginíu, Tim Kaine, og skólastjóra Virginia Tech að bandarísk yfirvöld muni bjóða fram alla þá aðstoð sem nauðsynleg sé til þess að rannsaka málið og til þess að aðstoða samfélagið við að ná bata.

„Ég sagði þeim að (forsetafrúin) Laura (Bush) og ég og margir vítt og breitt um Bandaríkin biðji fyrir fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra og fólkinu í háskólanum sem á um sárt að binda vegna þessa hræðilega sorgaratburðar,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert