45 milljónir hafa greitt atkvæði í netkosningu um sjö undur veraldar

Akrópólís við sólarlag.
Akrópólís við sólarlag. Reuters

Yfir 45 milljónir manna hafa nú greitt atkvæði í netkosningu um sjö „ný“ undur veraldar, en skipuleggjendur kosningarinnar lögðu fram lista með 21 sögufrægu mannvirki. Þau sem flest atkvæði hafa hlotið eru Akrópólís í Aþenu, forna mayaborgin Chichen Itza í Mexíkó, Kólosseum í Róm, Eiffelturninn í París og Kínamúrinn.

Forsprakki kosningarnnar er svissneski kvikmyndagerðarmaðurinn, safnvörðurinn og ferðalangurinn Bernard Weber. Er markmiðið að vekja athygli á sameiginlegum menningararfi jarðarbúa.

Segjast skipuleggjendur kosningarinnar vilja fá „venjulegt fólk“ til að fylgja fordæmi menntamanna við Miðjarðarhaf og í Miðausturlöndum sem völdu sjö undur veraldar um 200 f.Kr. Það eina sem enn stendur af þeim er Giza-pýramídinn í Egyptalandi.

„Kunni maður að meta menningu annarra er mun erfiðara en ella að fara í stríð við þá,“ segir talsmaður verkefnisins „New7Wonders,“ Tia Viering. Segir hún að atkvæði berist hvaðanæva úr heiminum.

Meðal fleiri mannvirkja sem hlotið hafa atkvæði eru Stonehenge í Bretlandi, inkarústirnar Machu Picchu og stytturnar á Páskaeyju.

Pýradmídarnir í Egyptalandi fengu heiðurssess í atkvæðagreiðslunni og verður ekki kosið um þá, eftir að yfirvöld í Egyptalandi mótmæltu og sögðu að sögulegt gildi þeirra yrði ekki dregið í efa. Hafa Egyptar reyndar gefið lítið fyrir kosninguna og segja hana vera auglýsingabrellu hjá ferðaskrifstofum.

Kosningunni lýkur 7. júlí, og verða úrslitin þá kynnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert