Edwards segir „hryðjuverkastríðið“ einungis slagorð Bush-stjórnarinnar

Edwards ásamt konu sinni, Elizabeth.
Edwards ásamt konu sinni, Elizabeth. Reuters

John Edwards, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata, hafnaði því í dag að „heimsstyrjöld gegn hryðjuverkum“ stæði yfir, og sagði hana ekki annað en kennisetningu ríkisstjórnar George W. Bush forseta, er hefði veikt hernaðarmátt Bandaríkjanna og gefið hryðjuverkamönnum byr undir báða vængi.

Edwards sagði í ávarpi að baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum væri ekki annað en „stuðaraslagorð“ sem Bush notaði til að réttlæta allt frá innrásinni í Írak til ofbeldisverka Bandaríkjamanna í Abu Ghraib-fangelsinu í Bagdad.

„Með því að kalla þetta stríð höfum við gengið beint í gildru hryðjuverkamannanna - við höldum að við stöndum í einhverskonar átökum milli menningarheima og í stríði við íslam,“ sagði Edwards.

Í kappræðum frambjóðendanna til útnefningar Demókrataflokksins í síðasta mánuði var Edwards einn fjögurra sem kvaðst ekki telja að „hryðjuverkastríð“ stæði yfir. Hillary Rodham Clinton og Barak Obama, sem standa best að vígi frambjóðendanna, gáfu aftur á móti í skyn að þau teldu að slíkt stríð væri raunin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert